Í Kammerkórnum, sem átti 10 ára afmæli á fyrra ári, eru tæplega 20 söngvarar víðsvegar af Norðurlandi, frá Blönduósi austur til Kópaskers. Á efnisskrá kórsins hafa oftast verið tónverk, bæði íslensk og erlend sem ekki heyrast oft í flutningi íslenskra kóra. Einnig hefur kórinn flutt verk sérstaklega samin fyrir hann. Á þessum 10 árum hefur kórinn haldið fjölda tónleika víðsvegar um Norðurland en einnig á Vesturlandi og í Reykjavík. Kórinn hefur einnig verið í samstarfi við aðra, t.d. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju og tekið þátt í Kórastefnu við Mývatn. Í tilefni afmælisársins stefnir kórinn á útgáfu síns fyrsta hljómdisks. Á fyrrnefndum tónleikum á Selfossi eru eingöngu íslensk verk, sönglög og þjóðlagaútsetningar og eru tvö verkanna frumflutt á þessum tónleikum. Margir aðilar, bæði fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar, hafa styrkt starf Kammerkórsins, m.a. Menningarráð Eyþings og ýmsir sparisjóðir á Norðurlandi svo einhverjir séu nefndir.