Kallinn minn!

Ásgeir Ólafsson skrifar

Mér var boðið í veislu um daginn þar sem ég hitti fyrir aðila sem sagði fyrir framan okkur öll sem þar voru , að hann myndi allt sem fyrir hann hafði verið lagt í gegnum tíðina. Hann sagði okkur stoltur frá því að hann væri með límheila og að hann hafi hagnast á þessu oft í vinnu sinni sem og annarsstaðar.

Ég var ekki lengi að “líma” mig á hann og spyrja hann út í þessa náðargáfu sem hann sagðist hafa og settist ég hjá honum. Ég var mjög forvitinn enda er ég svipaður  og hann er þegar kemur að númerum….alls kyns númerum.  Ég man símanúmer og jafnvel WEP númer.  En það eru númerin sem eru aftaná  “ráterum” sem færa okkur internetið þráðlaust.  Þegar ég hafði svo setið með honum í nokkrar mínútur, stóð hann móðgaður upp úr stólnum sínum og gekk fram á gang og gaf sig á tal við annað fólk.  Hann vildi ekkert meira við mig tala einhverra hluta vegna.  Ég vissi alveg af hverju og brosti.

Þessi aðili staðfesti það að hann myndi allt, og allt sem fyrir hann væri lagt. Mikilvægari hluti og minna mikilvæga. Allt! Svokallaðir límheilar geta verið duglegir í skóla vegna þess að þeir eru gæddir þessum kostum, að eiga auðvelt með að muna meðan aðrir þurfa að leggja á sig meiri vinnu og þjálfa þannig heilann í þeirri list að muna.

“Þú ert límheili?” spurði ég hann.  Hann sagði “jú, ég er það” og glotti”.  “Og þú manst allt , merkilegt og ómerkilegt?”, spurði ég aftur. “Já”, sagði hann,stoltur svo að það skein í tennurnar,  svo hélt hann áfram,  “Það er bara ekki hægt að reka hluti ofan í mig, það bara þannig” og var ég þá farinn að skynja það að hann væri pínu hrokagikkur. Ég ákvað að nýta mér það.

Áttu konu”, spurði ég. “Já, sömu konuna í tuttugu ár kallinn minn, og við eigum þrjú yndislega falleg börn saman” sagði hann”. Til hamingju “ var mótsvar mitt með hlýju brosi til hans. “En hvar búið þið”, spurði ég ekkert sérlega áhugasamur. “Við búum í einbýli í Grafarvoginum kallinn minn, og höfum búið þar í tíu ár eða svo, og okkur líkar vel, við keyrum um á Range Rover 2001 og Focus 2005, og búin að eiga þá bíla lengi” bætir hann við. Svo lítur hann á mig og spyr” Hvaða spurningar eru þetta eiginlega er þetta ekki partý maður?”, og brosir.

Um það bil mínútu síðar stóð hann upp og ég sá hann ekki meira það kvöld. Síðasta spurningin sem ég lagði fyrir hann varð til þess að hann stóð upp og gekk í burtu með núll stig. Límheilinn sjálfur gat ekki svarað því sem fyrir honum er, á hverjum degi, alla daga, allt árið. Það fer hrokafullum einstaklingum greinilega illa að vera “límheilar”, allavega í þetta skiptið og þeir ættu að spara það að nota það orð í samkvæmi þar sem menn eins og ég gætum leynst.

Þetta eru spurningarnar sem hann spreytti sig á.

Hver er fatastærð maka þíns og barna?

Hvorum megin í mælaborðinu á bílunum þínum tveimur er bensínmælirinn?

Hvernig er göfflum, hnífum og skeiðum raðað í hnífaparaskúffuna heima hjá þér?

Hver er augnlitur barna þinna?

Hvernig eru nærbuxurnar sem þú ert í núna á litinn?

Vonandi ertu ekki hrokafullur límheili, en ef svo er. Komd´í partý!

Höfundur er dagskrárgerðarmaður og þjálfari.

 

Nýjast