Kallar eftir úrræðum að loknu fæðingarorlofi

Hafrún Olgeirsdóttir fulltrúi E-lista í sveitarstjórn Norðurþings vakti máls á því á fundi sveitarstjórnar að sú staða væri komin upp á leikskólanum GrænuvöllumHafrún að ekki væri að takast að tryggja öllum börnum sem hafa náð eins árs aldri leikskólavist. Þá er ekkert annað úrræði í boði á vegum sveitarfélagsins til að brúa bilið að loknu fæðingarorlofi.

„Legg ég til að fjölskylduráð muni á fundi sínum í maí, í samráði við fræðslufulltrúa og leikskólastjóra, skoða alla þá möguleika sem í boði eru til að tryggja einhverskonar úrræði á vegum sveitarfélagsins að loknu fæðingarorlofi. Þau úrræði geta til dæmis verið sérstök ungbarnadeild á leikskólanum, dagmömmur, heimgreiðslur til foreldra eða fastur fjöldi aðlaganna á ári sem tryggir öllum börnum yngri en 15/16 mánaða pláss. Markmiðið ætti að vera meiri fyrirsjáanleiki sem tryggir betur samspil fjölskyldu- og atvinnulífs,“ segir í tillögu Hafrúnar sem var samþykkt á fundinum.

Í málefnasamningi meirihlutans í sveitarstjórn Norðurþings stendur: „Tryggja úrræði fyrir börn eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur og halda okkur við að inntökualdur leikskólabarna í Norðurþingi verði 12 mánuðir.“

Vikublaðið hafði samband við Kolbrúnu Ödu Gunnarsdóttur forseta sveitarstjórnar og spurði hvers vegna biðlistar væru nú að myndast á Grænuvöllum.

„Á Húsavík er þjónustustigið í leikskólanum mjög hátt miðað við flest sveitarfélög t.d. með því að hafa aðlögun 2-4 sinnum á ári. Það myndast sjaldan biðlisti og þegar það gerist hefur hann aldrei verið lengri en 4 mánuðir,“ segir Kolbrún í skriflegu svari.

Kolbrún Ada

Hún segir jafnframt að sem stendur sé eitt barn fætt í febrúar á biðlista. Önnur þrjú börn fædd í mars, apríl og maí fari á biðlista þegar þau verða eins árs. „Þessi fjögur börn þurfa að bíða aðlögunar í ágúst,“ segir hún og bætir við að ekki þyki skynsamlegt að aðlaga á sumarleyfistíma.

„Fjórar aðlaganir samtals 30 barna hafa farið fram á skólaárinu og starfsfólk leikskólans búið að hagræða og raða inn á deildir eins og það telur skynsamlegt til þess að koma sem flestum börnum inn á þessu skólaári.

Eftir ágúst þegar búið er að aðlaga stóran hóp barna er biðlistinn skoðaður í íbúagáttinni og reynt að átta sig á hver þörfin er mest næst, þ.e. hvenær við kæmum sem flestum börnum inn í aðlögun. Sumir kjósa að koma börnunum að strax en aðrir vilja bíða. Þegar þau eru svona lítil telur hvert barn svo mikið upp á starfsmannahald (fjárhag), pláss og skipulag deilda og starfsmannahalds að gera,“ segir Kolbrún Ada.


Athugasemdir

Nýjast