Lögn sem flytur kalt vatn í Glerárhverfi fór í sundur á gatnamótum Skarðshlíðar og Smárahlíðar á Akureyri snemma í morgun. Töluverðar skemmdir hafa orðið í Skarðshlíðinni, þar sem vatn flæddi upp í gegnum malbikið, auk þess sem grafa þurfti í gegnum malbikið í leit að biluninni. Vatnslaust er m.a. í Glerárskóla, íþróttahúsinu og sundlauginni og voru nemendur skólans sendir heim í morgun.
Það voru vegfarendur sem tilkynntu um að vatn fossaði um götur. Unnið er að viðgerð en ljóst að íbúar í hverfinu verða án vatns fram á kvöld í það minnsta. Þá er ljóst að hér er um talsvert tjón að ræða. Auk þess sem vatnslaust er í Glerárskóla, er vatnslaust í Hamri félagsheimili Þórs, stúdentaíbúðunum við Skarðshlíð og í Litluhlíð, Seljahlíð og Steinahlíð.