Kaldar kveðjur til grunnskólakennara

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Bundin viðvera hjá grunnskólakennurum felur í sér að kennarar skuli vera ákveðinn tíma innan veggja skólans. Á Akureyri er þetta u.þ.b. 38 klst. í bundinni viðveru. Á 37 vikna starfstíma skóla er vikuleg vinnuskylda kennara 42,86 klst. á viku til að vinna upp í haust-, vetrar-, jóla- og páskafrí. Margir halda að kennarar fái þau frí ókeypis, svo er ekki. Langt í frá.

Til að fylgjast með vinnutíma er vinnustund notuð. Í orðsins fyllstu merkingu fer fram mínútutalning á vinnutíma kennara þ.m.t. endurmenntuninni. Tímatalning og fyrirkomulag vinnutímans er ákveðið hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig og því ekki eins hjá öllum.

Covid tíminn

Kórónuveiran barst til landsins. Afleiðingarnar, eins og allir vita, kölluðu á annars konar vinnubrögð í hinum ólíku geirum, líka hjá kennurum. Nú var hluti kennslunnar eða öll kennsla færð heim til kennara, undirbúningur og úrvinnsla. Margir kennarar lögðu til eigin búnað, eigin nettengingu og sinntu starfi sínu af alúð. Viðveru kennara sem unnu í skólaum var breytt til að mæta álagi sem kennarar fundu fyrir á covid tímanum. Kennarar voru með nemendur í 4-5 klst. á hverjum degi og máttu fara kl. 14:00. Undirbúningur og úrvinnsla kennslu átti nú fara fram heima hjá kennara. Vegna aukaþrifa í sumum skólum var þess óskað að kennarar færu út úr skólanum kl. 14:00 svo ræstingafólkið kæmist að. Auðsótt mál.

Margir kennarar upplifa bindingu vinnutíma sem vantraust í sinn garð. Fram að covid var bundin viðvera og byrjaði aftur þegar samfélagið færðist í eðlilegra horf. Samt er talað um að við eigum að læra eitthvað af þessum tíma. Eins og grunnskólakennarar vita og hafa bent á fylgir bindingunni, við grunnskóla Akureyrarbæjar, ákveðið vantraust í þeirra garð. Sumum kennurum hentar að skila allri sinni vinnu, tæpum 43 klst., í skólanum á meðan öðrum finnst gott að hafa sveigjanlegan undirbúningstíma. Sumum finnst gott eftir erfiðan dag að fara í göngu- eða hjólatúr, fjallgöngu eða bara komast heim og sinna störfum sínum þar. Fram að þessu hafa yfirvöld bæjarins ekki viljað ljá sveigjanlegum vinnutíma grunnskólakennara eyra. Þvert á það sem menn leggja til í mörgum starfgreinum og hafa gert lengi.

Óskað eftir sveigjanleika

Trúnaðarmenn grunnskólanna á Akureyri hittust á fundi. Þar var farið yfir málin. Á fundinum var ákveðið að senda fræðsluyfirvöldum bréf þar sem óskað er eftir sveigjalegum vinnutíma og að kennurum yrði treyst fyrir vinnutíma sínum. Rétt eins og á covid-tímanum. Skemmst er frá að segja að svar barst kennurum og kveðjurnar kaldar. Nauðsynlegt að taka fram að ekki er verið að biðja um breytingar á vinnutímaákvæðinu, kennarar vilja eftir sem áður vinna tæpar 43 klst. á viku.

Kennarar vilja sveigjanleikann sem bæjaryfirvöld báðum um á covid tímum og kennarar veittu með auðmýkt. Sama vilja er ekki að finna hjá bænum þegar beðið er um slíkt hið sama, nú hinum megin frá.

Svar fræðsluyfirvalda við umræddu bréfi var:

2020050171 - Erindi frá trúnaðamönnum FG

Erindi dagsett 23. apríl 2020 frá trúnaðarmönnum Félags grunnskólakennara lagt fram. Samband íslenskra sveitarfélaga fer með umboð Akureyrarbæjar í kjaraviðræðum við Félag grunnskólakennara þar sem kröfugerð málsaðila er leidd til lykta. Það er mat fræðsluráðs að mikilvægt sé að þeim viðræðum ljúki áður en afstaða er tekin til óska um breytingar á vinnutímaákvæði kjarasamnings kennara hjá Akureyrarbæ. Það ætti að vera keppikefli samningsaðila að stuðla að auknum sveigjanleika í starfsumhverfi grunnskólakennara og hvetur fræðsluráð samningsaðila til að leita allra leiða svo ljúka megi gerð nýs kjarasamnings.

Af gefnu tilefni er vert að taka fram, ákvörðun um bindingu vinnutíma er í höndum hvers bæjarfélags. Það á við um kennara sem og aðra sem vinna hjá bænum. Hér er ekki um miðlæga ákvörðun að ræða.

Bæjarstjóri sendi bréf á starfsmenn Akureyrarbæjar á covid-tímanum og mærði m.a. þá frábæru tilhögun að geta unnið heima. Kennarar unnu líka heima. Samt sjá fræðsluyfirvöld enga ástæðu til að koma á móts við óskir kennara um sveigjanleika í starfi.

Sumarfrí handan við hornið

Nú líður að sumarfríi grunnskólakennara og veitir ekki af. Þeir hafa staðið í ströngu á covid tímanum, meira en menn gera sér grein fyrir. Að öðrum ólöstuðum vil ég hrósa þeim kennurum sem stóðu í ströngu með yngstu nemendur grunnskólans. Þetta var gríðarlega erfiður tími og mikið álag en kennarar einsettu sér að leggja sitt að mörkum og gerðu vel.

Grunnskólakennarar fá vonandi fregnir af því á komandi skólaári að fræðsluyfirvöld á Akureyri treysti kennurum fyrir vinnutíma sínum enda hafa þeir sýnt að þeir eru þess verðir.

Guðrún Guðmundsdóttir orti:

Þótt ég meti last og lof,

ljóst mér dæmin sanna,

að hvorttveggja er oft um og of

eftir viti manna.

Kæru kennarar, njótið sumarsins, náttúrunnar og samveru með þeim sem ykkur líður vel með og hjá. Munið að hlaða rafhlöðurnar fyrir næsta vetur.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og trúnaðarmaður.


Nýjast