Kærður fyrir kynferðisbrot
Gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um kynferðisbrot gegn tveimur átta ára drengjum á Akureyri hefur verið framlengt til 18. október. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er búið að gefa út ákæru á hendur manninum sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í morgun.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms kemur fram að sterkur grunur sé uppi um að maðurinn hafi með hótun fengið drengina inn í íbúð sína þar sem hann hafi haft þá á sínu valdi um stund um miðjan ágúst.
Auk brotanna gagnvart drengjunum er maðurinn grunaður um brot gegn þroskaskertri konu á Akureyri fyrr á þessu ári.
Ákærði er rúmlega þrítugur og er grunaður um gróf kynferðisbrot.
-þev