Kæra framsóknarfólk
Fyrir tæpu ári, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, setti oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík fram þá pólitísku skoðun að afturkalla ætti lóðaúthlutun til trúfélags múslima og sagði jafnframt að ekki ætti að úthluta lóðum til annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar til byggingar guðshúsa. Málflutningnum var augljóslega ætlað að sækja atkvæði til þeirra sem ekki hugnast að múslimar, eða jafnvel innflytjendur almennt, hafi sama frelsi og heimamenn til að iðka trú sína og menningu.
Þetta útspil vakti mikinn óróa hjá mörgum sem áhuga hafa og skoðanir á samfélagsmálum, innan og utan pólitísks flokksstarfs. Gagnrýnt var að forysta Framsóknarflokksins brygðist ekki nægilega skarpt við þessum yfirlýsingum og bent á að lítið heyrðist frá almennu flokksfólki, þó að auðvitað væru undantekningar þar á.
Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar en þróunin virðist vera svipuð um mestalla Evrópu; þjóðernissinnuðum öfgaöflum vex fiskur um hrygg. Við Íslendingar höfum enn sem komið er borið gæfu til að kjósa ekki slíka flokka til valda. Hins vegar verðum við vör við aukna hörku í umræðu um trúmál og málefni innflytjenda, þar sem hreinir og beinir kynþáttahatarar fá mun meira vægi í fjölmiðlum og almennri umræðu en áður.
Ástæða þess að ég beini máli mínu sérstaklega til félaga í Framsóknarflokknum er sú að ég tel ykkur vera útvörð samfélags okkar gagnvart þjóðernissinnuðum öfgaöflum og í raun eruð þið helsta von okkar um að geta hrundið þessari atlögu kynþáttahatara að samfélaginu. Ef þið leyfið þessum öflum að taka yfir flokkinn ykkar hafið þið auðveldað þeim að ná markmiðum sínum. Ef þau ná að búa um sig í ykkar flokki þurfa þau ekki að stofna sinn eigin flokk og með því verður leið þeirra til valda greiðari.
Slæmir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekki neitt.
-Sóley Björk Stefánsdóttir, höfundur er oddviti Vinstri græna á Akureyri.