KA steinlá gegn Fjölni á heimavelli
Fjölnismenn byrjuðu leikinn með látum og það tók þá um sex og hálfa mínútu að skora fyrsta markið. Gestirnir fengu þá dæmda aukaspyrnu rétt utan vítateigs vinstra megin. Viðar Guðjónsson tók spyrnuna, sem var ekki ýkja föst en fór í nærstöngina og inn og Sandor Matus hreyfði sig ekki í markinu. Óskabyrjun Fjölnismanna og staðan 0:1.
Fjölnir fékk síðan dæmda umdeilda vítaspyrnu á 18. mínútu. Ágúst Þór Ágústsson féll í teignum eftir baráttu við Hafþór Þrastarson, en svo virtist sem Hafþór hafi farið í boltann. Dómarinn var engu að síður viss á sinni sök og vítaspyrna dæmd. Illugi Þór Gunnarsson skoraði örugglega úr spyrnunni. Staðan 0:2.
Fjölnismenn voru nálægt því að bæta við þriðja markinu um tveimur mínútum síðar. KA-vörnin svaf þá illega á verðinum eftir fyrirgjöf inn í teig, þar sem Viðar Guðjónsson var einn á auðum sjó og fékk frían skalla en boltinn fór yfir markið. Fjölnismenn einfaldlega mun betri þessar fyrsta hálftímann og KA-menn komust ekkert áleiðis. Gestirnir bættu svo við þriðja markinu á 37. mínútu. Markið var í skrautlegri kantinum. Fjölnismenn áttu skot sem Sandor Matus í marki KA varði, boltinn barst til Kristins Freys Sigurðssonar sem skaut boltanum í slána, en fékk boltann svo í sig og boltinn þvældist inn í markið. Staðan 0:3 og ekkert í kortunum um að KA væri að fara svara fyrir sig. Úrslitin á Þórsvelli svo gott sem ráðin eftir 40 mínútna leik.
Staðan 0:3 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá síðari endaði. Fjölnismenn stjórnuðu leiknum en bitlausir KA-menn virtust hreinlega hafa sætt sig við ósigurinn. Gestirnir skoruðu mark snemma í síðari hálfleik sem var þó réttilega dæmt af.KA-menn hresstust aðeins þegar líða tók á hálfleikinn og sköpuðu sér nokkur hálffæri.
Martröð KA-manna hélt hins vegar áfram þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Sigurjón Fannar Sigurðsson braut á Kristni Frey Sigurðssyni, vítaspyrna dæmd og Sigurjón fékk beint rautt spjald. Aftur umdeildur og harður dómur, þar sem Sigurjón Fannar var ekki aftasti maður og brotið átti sér stað, að virtist, fyrir utan teig. Illugi Þór Gunnarsson gerði enginn mistök á vítapunktinum og staðan 0:4 á Þórsvelli. Úrslitin endanlega ráðin.
KA náði sárabóta marki á 90. mínútu með marki frá Guðmundi Óla Steingrímssyni.
Lokatölur á Þórsvelli, 4:1 sigur Fjölnis. KA hefur áfram sjö stig en Fjölnir er komið í 10 stig og blandar sér í toppbaráttuna.