14. maí, 2010 - 20:10
Fréttir
KA náði ekki að fylgja eftir góðum sigri á Þrótti í Reykjavík í 1. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu
karla, er liðið fékk nýliða Gróttu í heimsókn í kvöld. Liðin gerðu 1:1 jafntefli en leikið var á
Þórsvellinum, þar sem Akureyrarvöllurinn er ekki orðinn leikfær. Haukur Hinriksson skoraði með skalla eftir hornspyrnu fyrir KA á 70. mín. en
um þremur mínútum síðar jafnaði Magnús Bernhard Gíslason fyrir Gróttu, eftir klaufagang í vörn KA og þar við sat.
Fyrri hálfleikurinn í leik KA og Gróttu í kvöld var frekar daufur en leikmenn hresstust heldur í seinni hálfleik. Bæði lið fengu
þá færi en náðu ekki að nýta þau og verður jafntefli að teljast sanngjörn úrslit. Haukur Hinriksson hefur nú skorað
í báðum leikjum KA í deildinni en hann tryggði liði sínu sigur á Þrótti á dögunum og þá einnig með skalla
eftir hornspyrnu.