Davíð Búi Halldórsson var stigahæsti leikmaður efstu deildar karla í blaki og fékk fyrir það verðlaun á lokahófi Blaksambands Íslands sem fram fór um helgina. KA-menn hrepptu reyndar fleiri verðlaun á hófinu og má þar nefna að áðurnefndur Davíð fékk einnig viðurkenningu fyrir að vera bestur í móttöku, ásamt því að vera annar í kjörinu á besta leikmanni mótsins.
Hilmar Sigurjónsson var kosinn efnilegasti leikmaður deildarinnar, Filip Szewczyk var kostinn besti uppspilarinn. Þá var Marek Bernat kosinn þjálfari tímabilsins og Stefán Jóhannesson besti dómarinn.
Það má því með sanni segja að KA-menn hafi sópað að sér verðlaunum á lokahófinu og geta þeir vel við unað með árangur vetrarins, en liðið varð í þriðja sæti Íslandsmótsins sem er árangur framar væntingum.