Jónatan og Jóhannes líklega áfram með Akureyri

Akureyri tapaði sínum síðasta leik á tímabilinu gegn Gróttu 18-28 í DHL-deild kvenna í handbolta en leikurinn fór fram í KA-heimilinu. Grótta er með mjög sterkt lið og endaði í öðru sæti deildarinnar, það kom því ekki á óvart að Akureyri ætti við ramman reip að draga enda liðið í neðsta sæti og töluvert á eftir toppliðunum hvað varðar getu. Jóhannes Bjarnason, sem þjálfað hefur liðið seinni part vetrar ásamt Jónatan Magnússyni, sagði eftir leikinn að í raun hafi ekki verið mikið að í leik liðsins. „Við erum þessum skrefum á eftir fjórum til fimm bestu liðum í deildinni. Í okkar bestu heimaleikjum höfum við náð að kroppa í þau, töpuðum fyrir Val með einu og fyrir HK með tveimur. Við ætlum okkur að vera búin að ná þessum skrefum næsta keppnistímabil.”


Í fyrri hálfleik náði Grótta þægilegri forystu, sem varð mest 10 mörk, en í leikhléi var staðan 17-10. Í síðari hálfleik hélt Akureyri vel í horfinu en munurinn var alltaf þetta sjö til tíu mörk.

Uppbygging fyrir næsta tímabil hafin

„Úrslitin núna skipta ekki öllu máli, við erum fyrst og fremst að leggja inn í reynslubankann hjá þessum kornungu stelpum sem eru að spila leik eftir leik. Það voru þrjár 15 ára stelpur í hópnum í dag, sem hafa verið að spila í undanförnum leikjum og standa sig vel. Þær verða klárlega í hópnum næsta vetur og við erum ákveðnir í því að byggja þessar stelpur upp áfram,” sagði Jóhannes.

Þið verðið sem sagt áfram með liðið næsta tímabil?

„Ég á von á því að ég og Jónatan höldum áfram með liðið næsta tímabil, það er reyndar ekki búið að ganga frá því en við erum báðir áhugasamir um það og það passar okkur báðum ágætlega að vera saman með þetta. Við höfum ólíkt í púkkið að leggja og getum skipt með okkur verkum.”

Liðið hefur augljóslega verið í mikilli framför seinni part vetrar eftir að þið tókuð við, ertu sammála því?

„Það er svolítið annar taktur núna í liðinu en var áður, við höfum ekkert verið að spá alltof mikið í leikina sem slíka. Við höfum fyrst og fremst verið að vinna í málum sem skila okkur uppskerunni seinna. Við höfum unnið í grunnatriðum sem að skila okkar árangri seinna. Okkur hefur líka klæjað í lófana að byrja að styrkja stelpurnar líkamlega en þær eru á eftir leikmönnum hinna liðanna hvað varðar kraft. Við erum að fara núna í strangt lyftingaprógram og þegar verður búið að púsla öllum þessum þáttum saman er ég bara bjartsýnn á að við verðum sterk næsta ár. Einnig er ætlunin að styrkja liðið með nýjum leikmönnum, við erum nú þegar búin að fá einn leikmann. Örvhentan hornamann frá Póllandi sem flutti hingað í bæinn og hefur verið að æfa með okkur og lofar mjög góðu.

Ætlunin er að styrkja liðið með einum til tveimur sterkum leikmönnum í viðbót og við ætlum okkur að krafsa í bestu liðin næsta tímabil. Ég spái því að við verðum spútniklið bæjarins næsta vetur,” sagði Jóhannes brosandi að lokum.

Nýjast