Jón Páll ráðinn leikhússtjóri
Stjórn Menningarfélags Akureyrar hefur ráðið þrjá nýja sviðstjóra til starfa en alls sóttu 44 um störfin. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson verður tónlistarstjóri, Jón Páll verður leikhússtjóri og Sólveig Elín viðburðarstjóri. Jón Páll útskrifaðist úr East 15 Acting School í London árið 2000 sem leikari. Hann hefur samhliða leikarastarfi leikstýrt og sett saman sviðsverk hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar og með sjálfstæðum sviðslistahópum á Íslandi og Danmörku. Hann er einn af stofnendum Mindgroup en uppsetningar þeirra hafa vakið mikla athygli hér heima og erlendis og verið sýndar víða um Evrópu, nú síðast á Norrænum sviðslistadögum í Danmörku.
Einnig hefur Jón Páll verið stundakennari við í Listaháskóla Íslands og haldið vinnustofur hér heima og víða á Norðurlöndunum. Hann hefur í gegnum störf sín hjá Leikfélagi Akureyrar og sem einn af listrænum stjórnendum Borgarleikhússins og verkefnaráðinn leikstjóri sýnt hæfni sína og þekkingu til þess setja saman hóp sviðslistamanna og listrænna stjórnenda og laðað fram það besta úr hverjum og einum þannig að úr hafa orðið metnaðarfullar leiksýningar sem hafa snert við áhorfendum.
Sólveig lærði sýningarstjórn í Royal Central School of Speech and Drama í London. Hún starfaði sem sýningarstjóri um árabil m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar, Borgarleikhúsinu og Íslensku óperunni. Þá stundaði Sólveig tónlistarnám og lauk áttunda stigi í klassískum söng frá Nýja tónlistarskólanum í Reykjavík. Undanfarin sex ár hefur Sólveig verið búsett á Akureyri. Hún lauk ML gráðu í lögfræði við Háskólann á Akureyri í ágúst sl. og hefur verið í starfsnámi við Héraðsdóm Norðurlands eystra undanfarinn mánuð. Sólveig hefur verið viðloðandi Menningarhúsið Hof allt frá opnun þess og hefur starfað þar tímabundið við sýningarstjórn, miðasölu og verkefnastjórn.
Þorvaldur hefur starfað sem tónlistarstjóri, hljómsveitarstjóri, tónskáld, upptökustjóri, útsetjari og gítarleikari með fjölmörgum listamönnum á Íslandi og erlendis. Hann er með einleikarapróf á klassískan gítar og burtfararpróf í tónsmíðum. Hann stofnaði hljómsveitina Todmobile og hefur samið tónlist við marga söngleiki og leiksýningar, t.d. Ávaxtakörfuna, Benedikt Búálf, Gosa og Gulleyjuna. Einnig hefur hann samið og útsett tónlist fyrir kvikmyndir, auglýsingar, vefsíður og sjónvarpsþætti. Hann hefur unnið sem tónlistarstjóri í öllum helstu menningarstofnunum Íslands eins og Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, RÚV, Stöð 2 og einnig unnið mikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Jafnframt hefur verið gengið frá ráðningu á tveimur nýjum verkefnastjórum en alls sóttu 28 um stöðurnar sem auglýstar voru í nóvember síðastliðnum.
Þórunn Geirsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri skipulags- og sýningastjórn.
Þórunn hefur starfað í sviðlistum um árabil, lengst af í Þjóðleikhúsinu sem skipulags og sýningastjóri eða frá 2007. Hún lærði sýningastjórn í The Bristol Old Vic Theatre School og hefur unnið í flestum sviðlistastofnunum á Íslandi. Árið 2010 var Þórunn ráðin sem skipulagsstjóri og deildarstjóri sýningastjóradeildar í Þjóleikhúsinu og hefur starfað við það síðan.
Anna Bergljót Thorarensen hefur verið ráðin verkefnastjóri markaðsmál
Anna Bergljót er lærður viskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Þá er hún að leggja lokahönd á nám við menningarstjórnun frá sama skóla. Frá árinu 2007 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Leikhópsins Lottu og umboðsskrifstofunnar Kraðaks. Þá hefur hún sinnt hlutverki markaðs- og kynningarfulltrúa í Þjóðleikhúsinu frá árinu 2012. Anna Bergljót hefur áður starfað á Akureyri en á vormánuðum 2009 tók hún þátt í stofnun leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar og starfaði þar sem kennari í eitt ár. Einnig tók hún þátt í öðru starfi félagsins, meðal annars sem aðstoðarleikstjóri og kynningarfulltrúi.
Menningarfélag Akureyrar er sjálfseignarstofnun sem sett var á fót síðasta sumar og mun annast rekstur Leikfélags Akureyrar, Hofs og Sinfoníuhljómsveitar Norðurlands frá og með 1. janúar 2015 í samræmi við núverandi samninga aðilanna þriggja við Akureyrarbæ.