Jón Ingi býður sig fram í 3.-5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar

Jón Ingi Cæsarsson dreifingarstjóri og varabæjarfulltrúi hefur ákveðið að gefa kost á sér í sæti 3 - 5 í prófkjöri Samfylkingarinnar á Akureyri þann 30. janúar nk. Jón Ingi hefur starfað að bæjarmálum á Akureyri í yfir tvo áratugi og hann hefur verið formaður Samfylkingarinnar á Akureyri frá stofnun þess félags árið 2001, jafnframt því að sitja í flokksstjórn Samfylkingarinnar frá þeim tíma.  

Á þessum tíma í bæjarmálunum hefur Jón Ingi unnið að ýmsum málaflokkum og aflað sér reynslu og þekkingar sem nýtist honum til að vinna hagsmunum Akureyrar og Akureyringa gagn á komandi kjörtímabili, segir m.a. í fréttatilkynningu. Hann hefur starfað í skipulagsnefnd - umhverfisráði síðastliðin átta ár þar af sem formaður síðustu fjögur árin. Í nefnd um svæðisskipulag Eyjafjarðar sem varaformaður og í umhverfis - náttúruverndarnefnd samtals í tólf ár þar af sem varaformaður síðastliðin fjögur ár. Í skólanefnd grunnskóla í sex ár og þar af sem varaformaður nefndarinnar frá 1998 - 2002 og í kjarasamninganefndum bæjarins 1998 - 2002. Jón Ingi hefur starfað í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum Akureyrarbæjar meðal annars samnorrænu verkefni um umhverfismál sveitarfélaga á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Í ýmsum nefndum og undirhópum vegna sérstakra verkefna; (Miðbæjarskipulag  - uppbygging Oddeyrar - reiðveganefnd - óshólmanefnd, ferlinefnd fatlaðra o.fl. )

Síðastliðin fjögur ár hefur Jón Ingi verið varabæjarfulltrúi. Hann er í sambúð og á þrjú uppkomin börn.

Nýjast