Jólin með friðsælasta móti hjá Slökkviliði Akureyrar

Jólin hjá Slökkviliðinu á Akureyri voru með friðsælasta móti.  Ekkert brunaútkall hefur orðið frá 20. desember og er það langt undir meðaltali. Íbúar á starfsvæði SA hafa því greinilega farið sérstaklega varlega um hátíðirnar þegar áhætta vegna kertaljósa og eldamennsku hefur verið í hámarki.   

Greinilegt er að öflugt forvarnarstarf hefur skilað árangri og full ástæða til að hrósa íbúum fyrir þennan góða árangur, segir á vef slökkviliðsins. Nokkrir sjúkraflutningar voru um hátíðirnar en engin slys á starfssvæðinu.  Farið var í tvö sjúkraflug  til Hafnar í Hornafirði á jóladag og eitt sjúkraflug var á annan í jólum þar sem sjúklingur frá Sauðárkróki var fluttur til Reykjavíkur.  Óskandi er að næstu dagar verði jafn friðsamir en forvarnardeild SA fór m.a. í alla 7-9 bekki fyrir jólin með myndbandið "Ekkert fikt" þar sem varað er við fikti með flugelda, segir ennfremur á vef SA.

Nýjast