Jólahugleiðingar í grunnskóla

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Jólin er handan við hornið og annasömum mánuði brátt lokið. Rétt eins og í samfélaginu er mikið að gera í grunnskólum í desember mánuði. Við heyrum og sjáum auglýst á samfélagsmiðlum alls konar auglýsingar í tengslum við jólin. Tónleikar, tilboð, jólahlaðborð og aðventustundir svo fátt eitt sé nefnt. Mörgum finnst nauðsynlegt að taka þátt í öllu mögulegu og spenna bogann, bæði fjárhagslega og andlega, til að ná sem mestu.

Skólastarfið einkennist líka af fjölbreyttum tilboðum í desember. Bókahöfundar heimsækja skóla og lesa til að kynna bókina sína. Nemendum er boðið í heimsóknir s.s. á söfn og í kirkjur. Kakóferðir bekkja, jóladagur og jólaföndur er oft fastir liðir í skólastarfinu á þessum tíma. Auk þess magnast spenna í nemendahópum vegna jólanna og anna heima fyrir, eða réttara sagt spennu. Því miður er farið að minna á jólin í upphafi október. Mörgum börnum finnst biðin því of löng, sem hún er.

Margt fullorðið fólk láta eins vitleysingar á aðventunni og í kringum hátíðina sem í reynd á að vera notaleg stund allra fjölskyldumeðlima. Aðventuhátíðin á að einkennast af ró og ánægjulegum stundum fjölskyldunnar.

Jólasveinarnir hafa væntanlega hagað sér vel og gefið börnum gotterí eða eitthvað smávægilegt í skóinn. Þegar nemendur spyrja hvor annan hvað sveinninn gaf þeim og börn nefna dýra hluti hryggir það mann. Þá fer sjarminn af hefðinni. Gangið hægt inn um gleðinnar dyr í innkaupum jólasveinar.

Jólafrí nemenda og kennara er kærkomið. Kennarar þurfa að hlaða rafhlöðurnar og ekki síður nemendur. Það er óskandi að tölvur verði ekki aðalvettvangur skólabarna í jólafríinu heldur fjölskyldan og samvera með henni. Margir nemendur eiga erfitt með að snúa til baka að jólafríi loknu þegar tölvan hefur ráðið för í jólafríinu. Sólarhringnum jafnvel snúið við, tölvunnar vegna. Þeir sem því geta stjórnað eru foreldrar, þeir hafa völdin. Nýtið það.

Þegar jóladagar eru í skólum starfa kennarar undir ákvæði sem heitir uppbrotsdagar. Þessir dagar mega ekki vera fleiri en 10 á skóladagatali og eiga að koma fram á því. Minni ykkur á kennarar, þegar umræðan um skóladagatal fer af stað, að setja þessa daga inn á dagatalið. Duttlungar stjórnenda ræður ekki hvort dagur er uppbrotsdagur eður ei og getur dagurinn aldrei verið minna en hálfur skóladagur. Fundartímar falla niður þessa daga því það sem eftir lifir skóladagsins nýta kennarar í undirbúning kennslu.

Vil ég sérstaklega hvetja kennara að setja sig í fyrsta sæti, hugsið vel um ykkur í fríinu og notið hverja stund til að rækta ykkur, að innan sem utan. Mætum endurnærð til starfa að lokinni hátíð.

Ég óska þeim sem starfa í grunnskóla gleðilegra jóla.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

  


Athugasemdir

Nýjast