Jólagleði í Háskólanum á Akureyri

Íslenskur jólamatur á hlaðborði fyrir erlenda skiptinema  Myndir UNAK
Íslenskur jólamatur á hlaðborði fyrir erlenda skiptinema Myndir UNAK

Það má með sanni segja að Háskólinn á Akureyri sé kominn í jólabúning. Hefð er fyrir því að halda 1. desember, Fullveldisdag Íslands og dag stúdenta hátíðlegan í háskólanum. Að þessu sinni ferðaðist Jólalest HA um háskólasvæðið og gladdi stúdenta og starfsfólk með söng, heitu súkkulaði og smákökum. Fyrir hádegi safnaðist góður hópur saman við Íslandsklukkuna þar sem Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor, flutti ávarp um mikilvægi stúdenta í sjálfstæðis- og fullveldisbaráttu Íslendinga. Að því loknu hringdi Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri Íslandsklukkunni 23 sinnum, einu sinni fyrir hvert ár sem klukkan hefur staðið á stallinum við HA.

Nokkrum dögum áður stóð Miðstöð alþjóðasamskipta og Alþjóðanefnd SHA fyrir jólaboði fyrir erlenda skiptinema sem hafa stundað nám við HA á haustmisseri. Um er að ræða árlegt jólaboð sem er alltaf jafn vinsælt. „Við settum upp jólahlaðborð og buðum upp á íslenskan jólamat eins og hangikjöt, jólasíld, laufabrauð, jólasmákökur og drykki. Íslensk jólalög nutu mikilla vinsælda og Alþjóðanefnd SHA stýrði glæsilegri jólagetraun sem vakti mikla lukku,“ segir Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta.

„Mér fannst jólaboðið ótrúlega skemmtilegt. Það er búið að hugsa vel um okkur í haust og þessi viðburður er svo sannarlega engin undantekning. Mér fannst maturinn á hlaðborðinu mjög góður en margt er líkt því sem ég þekki í Danmörku svo það má segja að þetta sé jólamatur sem ég þekki en þó með íslensku ívafi. Íslenska laufabrauðið þótti mér best og það er sérstaklega gott með íslensku smjöri,“ segir Signe Marie skiptinemi frá Danmörku sem er ánægð með dvöl sína í HA.

Alls mættu 50 erlendir skiptinemar í jólaboðið og fjöldi skiptinema hefur aldrei verið meiri en þetta haustmisseri. „Flestir skiptinemarnir eru hér eitt misseri en þó eru nokkrir sem verða allt skólaárið. Eftir áramót tökum við á móti 34 nýjum erlendum skiptinemum sem munu stunda nám á vormisseri. Við stefnum að því að halda þorrablót fyrir þá skiptinema þar sem þeim mun gefast tækifæri til að smakka helsta þorramat Íslendinga. Mikil aukning hefur verið á fjölda skiptinema eftir að heimsfaraldrinum lauk og ég geri ráð fyrir svipuðum fjölda áfram næstu ár,“ segir Rúnar Gunnarsson að lokum.

 

Sólveig  Birna Elísabetardóttir til vinstri  og Elín Díanna Gunnarsdóttir til hægri.

Jólahlaðborðið var mjög vel sótt.


Athugasemdir

Nýjast