„Jöfn tækifæri óháð búsetu“

Ingibjörg Isaksen.
Ingibjörg Isaksen.

Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Framsóknarflokknum en það er Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, sem leiðir lista flokksins í NA-kjördæmi. Ingibjörg fluttist norður eftir nám árið 2004 og býr á Akureyri. Hún er gift Karel Rafnssyni og eiga þau samtals sex born og eitt barnabarn.

-Hvar ertu fædd og uppalinn?

„Fæddist í Reykjavík og ólst þar upp, nánar tiltekið í Breiðholtinu.“

-Hver eru þín helstu áhugamál?

„Helstu áhugamál mín er hreyfing í víðtækri merkingu þess orðs. Hef gaman af útivist, gönguferðum og líður hvergi betur en í vatninu enda æfði ég sund um árabil. Svo er ég að kynnast reiðmennskunni aftur sem mér þykir skemmtilegt.“

-Af hverju ætti fólk að kjósa Framsóknarflokkinn?

„Framsóknaflokkurinn er flokkur sem nálgast málin út frá skynsemi og er framsækinn miðjuflokkur. Við erum stolt af verkum okkar á líðandi kjörtímabili og er reiðubúin til að halda áfram veginn á næsta kjörtímabili í anda samvinnu, manngildis, raunsæis og hófsamra lausna. Við erum með öflugan og fjölbreyttan hóp einstaklinga sem vill gera gott samfélag enn betra.“

-Hverjar eru ykkar áherslur?

„Framsókn leggur m.a. áherslu á að lífsgæði og jöfn tækifæri séu til staðar óháð búsetu og efnahag. Það er ákvörðun að halda byggð í landinu og því nauðsynlegt að nýta þau tækifæri sem gefast til að jafna aðstöðumun landsbyggðarinnar og stórhöfuðborgarsvæðisins. Við leggjum áherslu á að fjárfesta í fólki og viljum að hið opinbera komi til móts við fólk á þeirra eigin forsendum, gefa því sem fjölbreyttasta möguleika á að þroska hæfileika sína, skapa verðmæti og taka sem virkastan þátt í samfélaginu. Við viljum efla byggð í landinu en til að fólki fjölgi á landsbyggðinni er einnig mikilvægt að stóra myndin gangi upp þ.e.a.s. að það sé aðgengi að húsnæði, fjölbreytt störf séu í boði, aðgengi að menntastofnunum frá leikskóla upp í háskóla, gott aðgengi að heilbrigðisstofnunum, lánsfjármagni o.s.frv. auk þess sem góðar samgöngur gegna lykilhlutverki.

Framsókn mun leggja áherslu á að vinna að breytingum í heilbrigðiskerfinu, bjóða upp á fjölbreyttari lausnir í þjónustu við eldra fólkið okkar og tækninýjungar verði nýttar betur. Ég tel samspil ríkis og einkarekstur sé vænlegast til árangurs og þar liggi tækifæri til að efla þjónustuna enn frekar og létta á heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að efla heilbrigðisþjónustuna út á landsbyggðinni en fólk út á landi á skýlaust sama rétt á heilbrigðisþjónustu og þeir sem búa á suðvesturhorninu.“

-Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulíf á Norðurlandi eystra?

„Við horfum til nýsköpunar, hugverks og bættu aðgengi að lánsfé fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Við viljum beita okkur fyrir því að nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni. Þannig nýtum við skattkerfið til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar. Ferðaþjónustan gegnir stóru hlutverki hér á svæðinu og uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og beint flug er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkar svæði. Grænt hagkerfi er nefnt reglulega en svæðið býr að gríðarlegum tækifærum til frekari nýtingar sbr. jarðböð, gróðurhús, vetni, snyrtivörur og svo má áfram telja. Hér liggja einnig afar mörg tækifæri til verðmætasköpunar í landbúnaði með staðbundinni framleiðslu og neyslu og aukinni fullvinnslu. En ekki síður með aukinni grænmetisframleiðslu í ljósi breytinga á neysluháttum. Þetta er hægt að efla enn frekar með niðurgreiðslu raforku.

Tækifæri liggja einnig í störfum án staðsetningar en þar er mikilvægt að þegar ný opinber störf verða til sé fyrst horft til landsbyggðarinnar. Einnig er mikilvægt að skilgreina hlutverk annars vegar Akureyrar og hins vegar Egilsstaða, ekki síst þegar kemur að stjórnsýslu landsins og þar með auka vægi þeirra í stóru myndinni. Tækifæri liggja einnig í störfum án staðsetningar en þar er mikilvægt að þegar ný opinber störf verða til sé fyrst horft til landsbyggðarinnar. Landsbyggðina vantar ekki einungis opinber störf heldur sérfræðistörf og vel borgandi störf þar sem þekking og menntun fólks fær að njóta sín. Í Norðausturkjördæmi eru einhver öflugustu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi, í botnfiski, uppsjávarvinnslu og fiskeldi. Það er því ljóst að í sjávarútvegi eru endalaus tækifæri. Í fiskeldi felast mikil tækifæri en það á ekki heima hvar sem er. Lög og reglugerðir í kringum fiskeldi þurfa að vera einfaldar og skýrar sem og gjaldtökuheimildir ríkis og sveitarfélaga.

-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?

„Tryggja þarf brothættum byggðarlögum sömu tækifæri til þróunar eins og öðrum byggðum landsins, til þess getur þurft sértækar lausnir ef þær almennu duga ekki til.  Mikilvægt er að tryggja að opinber grunnþjónusta sé til staðar s.s. samgöngur (vegir, ferjur, flug), viðhald vega og vetrarþjónusta, heilsugæsla, leikskóli og skóli í takt við þarfir samfélagsins t.d. blanda fjar-og staðkennslu ef við á sem og aðgangur að raforku og til staðar sé ljósleiðari eða amk dugandi nettenging. Stuðningur veittur við aðra grunnþjónustu s.s. verslun og vöruflutninga ef við á getur skipt máli sem og stuðningur og hvatar til verðmætasköpunar úr auðlindum svæðisins.

Mikilvægt er að tryggja aðgang að fjármagni til húsbygginga og atvinnutengdra fjárfestinga og áhrif laga/reglugerða breytinga á brothættar byggðir verði vaktaðar sérstaklega s.s. á fiskveiðistjórnunarkerfinu eða búvörusamningum. Sé farið í sérstök verkefni til að byggja upp brothættar byggðir er lykilatriði að verkefnisstjóri búi í samfélaginu.“

-Hvernig viltu þú og þinn flokkur efla innviði þannig að ferðaþjónustan geti blómstrað á svæðinu?

„Halda áfram að bæta samgöngur t.d. með betri vetrarþjónustu og almennri þjónustu við þjóðvegina. Áframhaldandi uppbygging flugvallanna er mikilvæg ferðaþjónustunni m.a.koma gervihnattaleiðsögn á fyrir aðflug sem eflir flugvöllinn enn frekar fyrir millilandaflug og jafna eldsneytisverð.  Tryggja aðgang að rafmagni og jöfnun dreifikostnaðar þannig að dreifðar byggðir séu samkeppnishæfari í ferðaþjónustunni. Einnig liggja tækifæri í frekara samstarfi ferðaþjónustu og landbúnaðarins sem fer oft mjög vel saman þar sem er staðfundin framleiðsla og neysla á hráefnum úr héraði.

Ég hef einnig heyrt ákall eftir þörf á aðgengi einstaklinga og fyrirtækja á landsbyggðinni að lánsfé til uppbyggingar fyrirtækja. Koma þarf á enn markvissara átaki í uppbyggingu ferðamannastaða og stýra þannig ferðamönnum og álagi á náttúruna. Bæði ríki og einkaaðilar geta komið að þeirri fjárfestingu.  Það þarf að efla Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og auka fjármagn til landsáætlunar þannig að hægt sé að taka á móti öllum þeim fjölda sem vilja sækja okkur heim.“

 

 


Athugasemdir

Nýjast