Landsfundurinn skorar á öll sveitarfélög að undirrita og hrinda í framkvæmd ,,Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum". Sáttmálinn kveður meðal annars á um aðgerðir sem sveitarfélögin geta tileinkað sér án þess að það feli í sér aukin fjárútlát. Erfið fjárhagsstaða sveitarfélaga þarf því ekki að leiða til frestunar á aðgerðum í jafnréttismálum. Landsfundurinn skorar jafnframt á alþingsmenn að skoða ítarlega hvaða áhrif samþykkt þess frumvarps um persónukjör sem nú liggur fyrir Alþingi, hefði á möguleika til að jafna stöðu kynjanna á þingi og í sveitarstjórnum.
Þema fundarins var tvíþætt þar sem annarsvegar var fjallað um konur og þátttöku í sveitarstjórnum, hinsvegar var fjallað um jafnréttisstarf sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarstjórnum og héruðum. Á fundinn mætti á fimmta tug sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga, ásamt áhugafólki á svæðinu.