Jarðvegsframkvæmdir vegna byggingar Mótorhjólasafns að hefjast

Jarðvegsframkvæmdir eru að hefjast á Krókeyri vegna byggingar Mótorhjólasafns Íslands sem þar verður.  "Við byrjum bara um leið og þiðnar, samningar eru fyrir hendi og allt klárt," segir Jón Dan Jóhannsson stjórnarformaður safnsins.  Safnið var stofnað í desember árið 2007 og fyrstu skóflustungurnar að byggingunni voru svo teknar sl. sumar.   

Safnið er stofnað til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson, sem lést í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Snigla sumarið 2006. Heiðar eða Heiddi eins og hann var ætíð kallaður, var af flestum bifhjólamönnum á Íslandi talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. Hann  hafði í mörg ár safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Heiðar lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta.

Nú á safnið nálægt 50 mótorhjól, að sögn Jóns Dans og mikið magn af hjólatengdum munum og ljósmyndum sem spanna alla sögu mótorhjólsins á Íslandi. Jón Dan segir að stefnt sé að því að steypa upp sökkla og fleira í vetur ef veður leyfir en miðað við aðstæður í þjóðfélaginu sé ómögulegt að gera nákvæmar áætlanir um  uppbyggingu safnsins eða hvenær byggingaframkvæmdum ljúki.  "Þetta hefur sinn gang, ég geri ráð fyrir að mikið verði unnið í sjálfboðavinnu við þetta verkefni, húsið mun rísa hægt og sígandi," segir hann. Mótorhjólasafnið verður sem fyrr segir á Krókeyri, húsið verður tveggja hæða, tæpir 800 fermetrar að stærð.

Nýjast