Jarðstrengur eða háspennulína?

Hugsanleg leið, rauð lína um 10 km.
Hugsanleg leið, rauð lína um 10 km.

Víðir Gíslason skrifar

Í Vikudegi nýlega var viðtal við Franz Árnason, fyrrverandi forstjóra Norðurorku. Þar setur hann fram athugasemdir við flutning raforku, hér við bæjarlandið, sem ástæða er að skoða nánar. Er þar átt við 220 kV háspennulínur sem Landsnet er með í ferli inn á aðalskipulag Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar. Mannvirkið er nokkuð fyrirferðarmikið, hver staurasamstæða er álíka stór og turnarnir á Akureyrarkirkju. Flutningsgeta er 400-500MW. Líftími má ætla að verði 50 til 80 ár.

Ég held að flestir sjái þörf fyrir aukið öryggi í orkuflutningum við Akureyri, fyrir framtíðarþróun iðnaðar hér.  Ekki síst þar sem hagsmunir Becromal njóta almenns velvilja. Þar er línan vestur frá Akureyri vissulega flöskuháls. Öðru máli gegnir hins vegar um línuna austur um til Kröflu. Endurnýjun hennar er ekki knýjandi vegna Becromal, þar sem flutningsgetan er 150 – 180 MW, og fjarri því fullnýtt. Ríkar ástæður eru fyrir því að bæjaryfirvöld hafa ekki sett stimpil á hugmyndir Landsnets varðandi endurnýjun þeirrar línu. Má þar nefna eftirfarandi.

1.   Hver verða áhrif línunnar á ásýnd og umgjörð Akureyrar? Skifta þau áhrif máli?

2.   Hver verða áhrif á framtíðaruppbyggingu útivistar og ferðamennsku í Hlíðarfjalli, Glerárdal, Súlumýrum og Kjarnaskógi? Veruleg áhrif yrðu þegar á uppbyggingu frístundabyggðar við Hlíðarenda, og á svæði Skotfélags Akureyrar.

Landsnet hefur gefið það út að reynt sé að lágmarka sjónræn áhrif slíkra mannvirkja. Víða er það mögulegt,  t.d. með fyrirhugaðar línur við Húsavík. Við þau landþrengsli sem eru hér við Akureyri, er svigrúm til slíks hinsvegar takmarkað. Línan yrði áberandi kennileiti, séð víða að úr bænum. Ljóst er að hvergi á landinu hefði lína af þessu tagi, sterkari áhrif á umgjörð þéttbýlis.

3.   Mikilvægt atriði er, að línurnar yrðu ógn við flugöryggi í Eyjafirði. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu Landsnets, myndu áhrif þeirra verða til þess að Akureyrarflugvöllur stæðist ekki alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Því metnaðarfulla starfi sem unnið hefur verið undanfarið, við endurbætur og markaðssetningu flugvallarins, gæti verið stefnt í voða. Einnig verður að geta þess, að núverandi háspennulínur við suðurenda flugbrautar, setja vissar takmarkanir á aðflug, oggeraþað að verkum að flugvöllurinn uppfyllir ekki áðurnefndar kröfur.

Komið hefur fram hugmynd um að leggja jarðstreng frá tengivirki við Kífsá og austur á Vaðlaheiði, u.þ.b. 10 km vegalengd. Leiðin er kjörlendi fyrir lagningu strengs, mjúkur jarðvegur með góða hitaleiðni sem er mikilvæg fyrir vellíðan jarðstrengja. Ummerki eftir strenglögn væru óveruleg að framkvæmdatíma loknum. Sjónræn áhrif háspennulínu væru hins vegar veruleg. Leggja þyrfti línuvegi vegna framkvæmda og viðhalds yfir líftíma mannvirkisins. Lægju þeir m.a. um ósnortið land sem nýtur nú verndar samkvæmt lögum. Lagning þessa jarðstrengs myndi leysa þau vandamál sem skapast myndu annars, af nábýli háspennulínu og þéttbýlis við Akureyri. Það væri einnig í samræmi við markmið í núgildandi aðalskipulagi.

Tæknilegar framfarir á síðustu árumgeraháspennta jarðstrengi að sífellt álitlegri kosti. Nú framleiða 22 verksmiðjur í Evrópu þessa strengi. Framleiðsluaukning hjá þeim er 40% frá 2008. Sem dæmi má nefna, að í Þýskalandi eru nú um 600 km af stórum orkuflutningslínum á framkvæmda- eða skipulagsstigi. Þriðjungur þeirra verður lagður með jarðstrengjum. Þróunin er almennt sú, að hluti orkuflutningsleiða er lagður í jörðu, þar sem farið er um svæði sem loftlínur eru taldar óæskilegar af ýmsum ástæðum.

Stofnkostnaður jarðstrengs er hærri en háspennulínu. En þegar kostnaður yfir líftíma mannvirkisins er reiknaður, þá verða hlutföllin mun hagstæðari. Hver kostnaður væri við áðurnefnda strenglausn hér er erfitt að segja til um fyrirfram. Reikna þarf út hvert verkefni fyrir sig vegna breytilegs umhverfis á hverjum stað. Líkur benda þó til að jarðvinna við strenginn yrði tiltölulega ódýr hér, vegna góðra aðstæðna.

Nú er til umfjöllunar fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um opinbera stefnumörkun varðandi lagningu háspennulína og jarðstrengja. Full ástæða er til fyrir sveitarstjónarmenn og alþingismenn, að fylgjast með starfi þeirrar nefndar, og koma hagsmunum og sjónarmiðum okkar þar á framfæri. Þetta mál snýst ekki um hvort flytja eigi orkuna hér um Eyjafjörð, heldur hvernig hún skuli flutt. Það snýst um að valin sé metnaðarfull leið og í takt við nútíma kröfur. Leið sem er tæknilega og fjárhagslega möguleg og hæfir sérstökum aðstæðum hér.

Þegar horft er á fyrirhugað línustæði, er fróðlegt að horfa til eldri háspennulína sunnan bæjarins. Vegna þróunar byggðar og athafnasvæða liggur fyrir að lega línanna brýtur í bága við gildandi reglur um nálægð háspennulína við tjaldsvæði, útivistarsvæði og sumarhús. Dæmi um þetta eru Hamrar og Kjarnaskógur. Athugasemdir liggja fyrir frá eftirlitsaðila, en ekkert hefur verið aðhafst til úrbóta. Flytja hefur þurft línurnar áður, vegna árekstra við athafnasvæði. Í dag leysir Landsnet slík vandræði með jarðstrengjum, eins og fjölmörg dæmi sýna.

Höfundur er íbúi á Akureyri

Texti með mynd: Hugsanleg leið, rauð lína um 10 km; Frá Kífsá eftir strengjaleið að Rangárvöllum. Fylgi þaðan línuleið suður að Hömrum, þá til austurs að jaðri Kjarnaskógar. Þveri óshólma Eyjafjarðarár með gamla þjóðvegi. Fyrsta mastur í brekkurótum neðan Bíldsárskarðs. Kjörlendi fyrir strenglögn, mjúkur jarðvegur og góð hitaleiðni. Ekki þarf aðgengi að strengnum eftir að framkvæmdum lýkur, nema komi til bilunar. Hylja má strengleið með rótarlitlum gróðri, þannig að ummerki verði lítil sem engin. Bláar línur t.v. sýna hugmyndir Landsnets að 220 kV línu vestan megin í bæjarlandinu.

Nýjast