Rúmlega 200 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í febrúar og er það svipaður fjöldi og var mánuðinn á undan. Tvær smáhrinur urðu, með tveggja daga millibili, vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Sú fyrri hófst að morgni 24. febrúar og stóð fram yfir hádegi þann dag. Rúmlega 30 skjálftar mældust, stærsti um þrjú stig. Fyrri hluta mánaðarins höfðu mælst yfir 20 skjálftar á þessum stað. Síðari hrinan varð um fjórum kílómetrum austar en sú fyrri og hófst klukkan 08:06 þann 26. febrúar með skjálfta sem var 3,4 að stærð. Annar skjálfti sömu stærðar varð sex mínútum síðar. Tilkynningar bárust frá Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri um að þeir hefðu fundist. Um tugur eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið. Í september og október í fyrra varð hrina á þessum slóðum þar sem hundruðir skjálfta mældust og var sá stærsti tæp fjögur stig.
Hátt í 60 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, einkum síðari hluta mánaðarins, enginn stærri en tvö stig. Rúmlega 20 skjálftar mældust norðar á Grímseyjarbeltinu. Á annan tug skjálfta mældist við Kröflu, allir um og innan við einn að stærð, og fáeinir við Þeistareyki.