Jakobína er fædd árið 1957 á Húsavík. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1978 og starfaði sem slíkur í 20 ár, lengst af á gjörgæsludeild FSA. Hún lauk prófi í leiðtogaþjálfun og verkefnastjórnun frá EHÍ 2004 og prófi í stjórnun og rekstri, sem hannað var fyrir verkalýðshreyfinguna, frá Háskólanum á Akureyri árið 2006. Þessu til viðbótar hefur hún setið ýmis námskeið og stundar nú fjarnám í Verslunarskóla Íslands.
Jakobína hefur starfað fyrir stéttarfélög sem trúnaðarmaður og samninganefndarmaður frá árinu 1988 og tók þátt í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Hún var kjörin formaður STAK, Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, árið 1992 og hefur verið formaður síðan þá. Árið 2004 varð Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, til við sameiningu fimm bæjarstarfsmannafélaga og hefur Jakobína verið formaður þess félags frá upphafi. Hún hefur starfað fyrir BSRB að ýmsum málum, s.s. í réttindanefnd og orlofsnefnd. Eiginmaður Jakobínu er Skúli Árnason, svæðisstjóri Íslandspósts á Norðurlandi og saman eiga þau tvo uppkomna syni og einn sonarson.
Í fréttatilkynningu frá Jakobínu segir að verði hún kjörin formaður BSRB hyggist hún búa áfram á Akureyri og ljúka kjörtímabili sínu sem formaður KJALAR en því lýkur árið 2011. Hins vegar muni hún þá ráða starfsmann í sinn stað á skrifstofu KJALAR um leið og hún hæfi störf sem formaður BSRB. "Ég vil með framboði mínu vinna að samvinnu og samheldni innan BSRB og láta gott af mér leiða. Ég vil efla þjónustu við félagsmenn og aðildarfélög þeirra og standa vörð um þau mannréttindi og velferðarmál sem forfeður okkar hafa mótað og sett upp til verndar einstaklingum. Ég vil jafnframt opna fyrir ný viðhorf og frekari umbreytingu samfélaginu til handa. Fyrst og síðast vil ég gera vel, vinna faglega og ná tiltrú fólks til hagsbóta fyrir BSRB," segir ennfremur í fréttatilkynningunni.