Laugardaginn næstkomandi þann 19. september kl. 14:00 opnar Harldur Ingi Haraldsson vinnustofusýningu í Sýningasal Myndlistafélagsins í Listagilinu á Akureyri undir nafninu Codhead Xl. Sýningin stendur til 27. september. Á sýningunni má sjá málverk unnin með blandaðri tækni á pappír frá 2014 - 2015. Codhed er heimur þar sem jakkafataklætt fólk með bindi og þorskhaus sinnir margvíslegum viðfangsefnum í umhverfi sem skilgreinir heiminn.
Codhead er samstofna orðinu Godhead og á einhvern hátt nánast sama orðið. Þorskdómur og guðdómur. Um sýninguna segir Haraldur Ingi: Ég hef fengist við Codhead síðan 2000 og þetta er pólitísk list og fjallar að hluta til um heimspeki rándýrsins: Græðgi, eigingirni og miskunnarleysi sem er kjarni nýfrjálshyggjustjórnhátta vesturlanda. Á Íslandi afhjúpaði hrunið 2008 inngróna spillingu íslensks samfélags og meðvirkni á ævintýralega háu stigi. Allt þetta dregur kraft úr samfélögum og ógnar framtíð almennings. Þetta er mér ofarlega í huga. En svo er ég einnig mjög upptekinn af hefðbundnum úrlausnum framsetningar myndlistar á sviði litameðferðar, myndbyggingar og annarrar framsetningartækni.
Ég er mjög meðvitaður um að myndlist er að miklum hluta sjónræn og tilfinningaleg upplifun sem gefur ekki rými til predikunar eða framsetningu algildra sanninda.
Meðan á sýningunni stendur mun ég vinna að ýmsum verkum sem eru í farvatninu og opnunartíminn ræðst af þeirri vinnu frá um það bil átta á morgnanna og fram á kvöld. Þegar skiltið er úti og ljós í glugga þá er opið.
Haraldur Ingi er menntaður í myndlist frá Myndlista og handíðaskóla Íslands, Aki Akademie Voor Beeldende Kunst Enchede Holland og Vrije Academie Den Haag Hollandi.