Íþróttamaður Akureyrar krýndur í kvöld
Íþróttabandalag Akureyrar boðar til verðlaunahátíðar í Menningarhúsinu Hofi í dag kl. 17.00 þar sem lýst verður kjöri íþróttamanns Akureyrar 2014. Verðlaunahátíðin er opin öllum og eru bæjarbúar hvattir til að mæta. Flest aðildarfélög ÍBA hafa tilnefnt íþróttamann ársins úr sínum röðum. Valnefnd skipuð stjórn ÍBA og fulltrúum fjölmiðla á Akureyri kýs íþróttamann Akureyrar úr þeim hópi og fær íþróttamaður hvers félags viðurkenningu, auk þess sem þrír efstu í kjörinu verða verðlaunaðir sérstaklega.
Við sömu athöfn verða afhentar heiðursviðurkenningar Íþróttaráðs Akureyrarbæjar. Þá verða afhentar viðurkenningar og styrkir til þeirra íþróttafélaga sem áttu landsliðsmenn og Íslandsmeistara á árinu 2014.
Dagskrá:
Kl. 17.00 Húsið opnað
Kl. 17.15 Dagskrá hefst
-
Setning: Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður ÍBA
-
Ávarp: Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi og formaður Íþróttaráðs Akureyrarbæjar
-
Kynning á íþróttamönnum aðildarfélaga ÍBA
-
Landsliðsfólk og Íslandsmeistarar forsvarsmenn íþróttafélaganna taka við viðurkenningum og styrkjum
-
Heiðursviðurkenningar Íþróttaráðs Akureyrarbæjar
-
Heiðursfélagi ÍBA
-
Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2014 lýst
-
Formaður ÍBA slítur samkomunni
Íþróttabandalag Akureyrar og íþróttaráð Akureyrarbæjar bjóða bæjarbúum að vera viðstaddir athöfnina og heiðra þannig afreksíþróttafólk bæjarins.
Íþróttamaður Akureyrar var fyrst kjörinn árið 1979 og er þetta í 36. skipti sem kjörinu er lýst. Vernharð Þorleifsson hefur oftast hlotið þessa nafnbót, sjö sinnum.