Íslensk verðbréf opna starfsstöð í Reykjavík

Íslensk verðbréf hafa opnað starfsstöð að Sigtúni 42 í Reykjavík. Starfsstöðinni er ætlað að þjóna viðskiptavinum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Opnun starfsstöðvarinnar er svar við aukinni spurn eftir þjónustu Íslenskra verðbréfa, en allt frá falli bankanna síðasta haust hefur viðskiptavinum fjölgað til muna. Í sumar tóku Íslensk verðbréf jafnframt við þjónustu viðskiptavina SPRON á eignastýringarsviði auk þess sem sjóðir Rekstrarfélags SPRON fluttust til Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf.  

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir að opnun starfsstöðvar í Reykjavík marki tímamót í sögu félagsins. "Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir þjónustu félagsins undanfarið, ekki síst vegna þess að félagið er og hefur verið óháð bankakerfinu, sem varð fyrir miklum áföllum á síðasta ári. Einnig hefur það sitt að segja að félagið stendur fjárhagslega vel og er jafnframt eitt af elstu fjármálafyrirtækjum landsins í dag, " segir Sævar. Það sem af er þessu ári hefur afkoma Íslenskra verðbréfa verið jákvæð og í takt við áætlanir að sögn Sævars.

Íslensk verðbréf voru stofnuð árið 1987 og eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem sinnir viðskiptavinum um land allt. Starfsmenn eru 21 talsins og kjarni þeirra hefur starfað hjá félaginu í 10 ár eða lengur. Höfuðstöðvar félagsins er að Strandgötu 3, Akureyri og afgreiðsla er opin frá 9 til 16 alla virka daga. Jafnframt er starfsstöð að Sigtúni 42 í Reykjavík þar sem viðskiptavinir geta sótt alla þjónustu. Starfsstöðin er opin frá 9 til 12 og 12:30 til 16 alla virka daga.  Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingafélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Eignir í stýringu námu um 90 milljörðum króna um mitt ár 2009.

Nýjast