Íslendingum fjölgað um helming á tjaldsvæðunum

Séð yfir tjaldsvæðið á Hömrum á Akureyri. Landsmenn flykkjast í útilegur og mikill straumur hefur ve…
Séð yfir tjaldsvæðið á Hömrum á Akureyri. Landsmenn flykkjast í útilegur og mikill straumur hefur verið norður. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

„Við erum mjög ánægð með sumarið og aðsóknina hingað til,“ segir Tryggvi Marinósson forstöðumaður tjaldsvæðanna á Akureyri. „Maí og júní voru mjög góðir og fjölgun gistinátta í báðum mánuðum þrátt fyrir að aðeins séu örfáir erlendir gestir. Júlí hefur farið vel af stað og um N1-móts helgina voru nokkuð fleiri en á síðasta ári.“

Tryggvi segir að um 20% aukning sé fyrstu mánuði ársins miðað við árið í fyrra. „Ef við skoðum gistinætur meðal Íslendinga frá áramótum þá voru þær 5.400 á árinu 2019 en eru núna í ár 10.300. Þetta er því helmings aukning.“

Undanfarin ár hafi erlendir ferðamenn verið um 30% gesta en núna eru þeir nánst ekki. „Frá áramótum hafa um 100 erlendir gestir verið á tjaldsvæðunum en voru 2.200 á sama tíma í fyrra. Íslendingar halda þessu því uppi og eins og tölurnar sýna að ofan þá gera þeir það almennilega.“

Hann segir þó hlutina geta verið fljóta að breytast og veðrið spili stóran þátt í því hvort gestir komi á tjaldsvæðin eður ei. „Veðrið hefur verið fínt framan af sumri. Við höfum fengið þrjá toppa; Hvítasunnuhelgina, N1-mótið og síðustu helgi. Mér sýnist júlí ætla vera að góður mánuður og það stefnir allt í að þetta verði gott sumar,“ segir Tryggvi. Tjaldsvæðið í Hömrum er skipt upp í nokkur sóttvarnarhólf og það hefur gengið þokkalega að sögn Tryggva.

 


Athugasemdir

Nýjast