Ísland vann öruggan sigur á Tævan, 11:1, í fyrsta leik sínum í 3. deild heimsmeistaramóts U20 ára landsliða í
íshokkí sem fram fer þessa dagana í Istanbúl í Tyrklandi en Ísland leikur í riðli með Tyrkjum, Tævan og
Norður-Kóreu. Í hinum riðlinum eru Ástralía, Nýja-Sjáland og Búlgaría.
Matthías Sigurðsson skoraði 5 mörk fyrir Ísland í leiknum í dag, Egill Þormóðsson 2 mörk og þeir Hilmar Freyr Leifsson (SA), Jóhann Leifsson (SA), Pétur Maack og Óskar Grönholm skoruðu eitt mark hver. Þá lagði Orri Blöndal (SA) upp tvö mörk fyrir samherja sína í leiknum.
Alls leika sex leikmenn frá Skautafélagi Akureyrar með íslenska liðinu en það eru þeir Ingólfur Tryggvi Elíasson, Sigurdur Óli Árnason, Gunnar Darri Sigurðsson, Hilmar Freyr Leifsson, Jóhann Már Leifsson og Orri Blöndal.
Næsti leikur Íslands er gegn Norður- Kóreu á miðvikudaginn kemur.