Íris Guðmundsdóttir, skíðakona úr SKA, slasaðist illa þegar hún missti jafnvægið eftir stökk á miklum hraða og lenti á bakinu, er hún var við keppni á skíðamóti í Noregi um helgina. Íris var í hópi þeirra sjö skíðamanna frá Akureyri sem valdir voru til að keppa á Ólympíuleikum æskunnar sem fram fara í Jaca á Spáni í þessum mánuði en þar er keppt í flokki 15 - 16 ára.
Íris lenti illa á bakinu en fékk einnig þungt högg í andlitið og höfuðið áður en hún staðnæmdist. Í ljós er komið að þrír hryggjarliðir brotnuðu í baki Írisar auk þess sem hún fékk slæman heilahristing og er marin og skorin í andliti. Foreldrar Írisar eru komin til hennar á sjúkrahúsið í Þrándheimi þar sem hún liggur nú. Þau segja hana fulla af bjartsýni og ákveðna í að koma fjótt aftur til keppni, samkvæmt því sem fram kemur á vef Skíðafélagsins.