Bjarni segir að næg verkefni séu fyrir hendi í flutningum, einkum þó og sér í lagi útflutningi. „Það er aðeins minna flutt inn en áður, innflutningur hefur almennt dregist saman, en við erum ánægðir með að það er nóg að gera í útflutningi," segir hann. Dregg, sem er í eigu sömu aðila, hefur flutt inn efni til gatnagerðar og fyrir fráveitur, en á því sviði hefur orðið umtalsverður samdráttur. Bjarni bendir á að t.d. í Reykjavík sé búið að leggja mikið af götum með tilheyrandi fráveituframkvæmdum sem því fylgir. „Það er fyrirsjáanlegt að samdráttur verður á næstu árum hvað þessar framkvæmdir varðar, þannig að við erum farnir að skoða aðra hluti, ætlum að fara yfir í eitthvað annað á meðan þannig árar í þjóðfélaginu," segir Bjarni.
Dregg hefur til umráða lóð á Sanavellinum gamla og er búið að teikna hús undir starfsemina, en Bjarni segir að rólegt sé yfir fyrirhuguðum framkvæmdum á því sviði sem stendur. „Það er ekki alveg ljóst út í hvað við förum, við erum að skoða þessi mál öll og ætlum að sjá hvað gerist á næstu mánuðum áður en ákvörðun liggur fyrir," segir Bjarni.