Innbrot í Bílaleigu Húsavíkur enn óupplýst

Bílaleiga Húsavíkur. Mynd/epe
Bílaleiga Húsavíkur. Mynd/epe

Innbrot sem framið var í Bílaleigu Húsavíkur aðfararnótt 15. september er enn óupplýst að sögn Hreiðars Hreiðarssonar varðstjóra lögreglunnar á Húsavíkur. Óprúttin aðili eða aðilar braut sér leið inn um glugga syðst á vesturhlið hússins. Þjófurinn hafði á brott með sér um 400 þúsund krónur í peningum.

„Málið er ekki upplýst, þó að það hafi verið lögð töluverð vinna í rannsókn þá hefur það ekki skilað neinu enn þá,“ segir Hreiðar í samtali við Vikublaðið.

Þá leit út fyrir það á tímabili að alda innbrota í bíla hafi riðið yfir Húsavík á svipuðum tíma en tilkynnt var um innbrot í a.m.k. fjóra bíla með nokkurra daga millibili þar sem verðmætum hafði verið stolið. Við nánari eftirgrennslan virðist þó sem farið hafi verið inn í alla bílana sömu nóttina og líklega af sama aðilanum þó brotin hafi ekki öll uppgötvast samdægurs. „Þetta voru ekki beint innbrot heldur voru opnaðar hurðir á ólæstum bílum á einum fjórum stöðum í bænum. Við fundum úr fyrsta bílnum því sem hafði verið stolið en því hafði verið fleygt inn í runna. Ef maður fer á milli þessara bíla þá virðast þeir bara hafa verið í gönguleið sama aðilans sem hefur komið við í þeim öllum í leit að verðmætum,“ segir Hreiðar og bætir við að ekkert bendi til þess að um innbrotaöldu sé að ræða. Hann vill jafnframt koma því á framfæri við bílaeigendur að mikilvægt sé að læsa bifreiðum sínum þegar þeim er lagt.


Athugasemdir

Nýjast