Ingibjörg Isaksen stefnir á þing

Ingibjörg Isaksen.
Ingibjörg Isaksen.

Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, ætlar að sækjast eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar næsta haust. Ingibjörg tilkynnti þetta á Facebooksíðu sinni í gærkvöld. Ingibjörg hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar fyrir hönd Framsóknarflokkinn undanfarin ár.

„Síðastliðin tíu ár hefur stór partur af lífi mínu snúist um pólitík. Fyrst í sveitinni minni Eyjafjarðarsveit og svo á Akureyri. Það vita allir sem þekkja mig að ég er keppnismanneskja og vil ná árangri í þeim störfum sem ég sinni. Ég hef ekki skorast undan því að taka að mér krefjandi verkefni og bý að þeirri reynslu um ókomna tíð.

Það sem heillar mig við pólitíkina er fyrst og fremst snertingin og samtalið við fólkið ásamt því tækifæri sem manni gefst til að bæta samfélagið sitt.
Framsóknarflokkurinn á fullt erindi til að vera leiðandi afl í Norðaustur- kjördæmi og ég lít svo á að það sé merki um heilbrigðan og sterkan stjórnmálaflokk að flokksmenn hafi val þegar kemur að því að velja fólk.
 
Á fjölmennu kjördæmisþingi Framsóknar í kvöld við óvenjulegar en skemmtilegar aðstæður tilkynnti ég að ég myndi bjóða fram krafta mína í fyrsta sæti fyrir Framsóknarflokkinn í NA í komandi alþingiskosningum haustið 2021. Þetta verður krefjandi og spennandi verkefni og ég er full tilhlökkunar!," skrifar Ingibjörg í færslu á Facebook.
 
 
 

Athugasemdir

Nýjast