Inflúensan er komin

Nokkrar fjölskyldur á Akureyri greindust með inflúensu um helgina. Þar með er þessi árvissi faraldur staðfestur og búast má við einhverjum veikindum á næstu vikum. Ýmsar kvefpestir aðrar en inflúensa ganga þessa dagana eins og venjan er á þessum árstíma. Helsti munurinn á kvefpest og inflúensu er sá að inflúensueinkennin koma hratt fram, hitinn er hár og stendur yfir í nokkra daga, beinverkir og höfuðverkir eru meiri en með kvefi en einkenni frá nefi eru oft lítil. Fólk verður almennt mun veikara af inflúensu en kvefpestum og veikindin taka lengri tíma. Heilu fjölskyldurnar eða bekkjardeildirnar leggjast í einu. Helstu ráð við inflúensu eru að fara vel með sig, drekka vel af vatni og taka parasetamol við beinverkjum og höfuðverk ef með þarf. Ekki er nauðsynlegt að leita til læknis til staðfestingar á inflúensusmiti en ef veikindi verða langvarandi eða svæsin þá er fólki bent á að leita til heimilislækna. Í haust var bólusett gegn inflúensu og voru rúmlega 2.200 manns bólusettir. Er það svipaður fjöldi og fyrri ár. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Athugasemdir

Nýjast