Iðjuþjálfun
Við erum 4. árs nemar í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri. Í tilefni dagsins sem er haldin hvert ár þann 27. október, langar okkur að koma faginu á framfæri og kynna fyrir almenningi hvað iðjuþjálfun er. Alþjóðlegi iðjuþjálfunardagurinn var haldinn í fyrsta skiptið árið 2010 og þemað í ár er fjölbreytileikinn sameinar okkur.
Hvað gera iðjuþjálfar?
Iðjuþjálfun er ansi fjölbreytt fag og byggir á mörgum fræðilegum nálgunum og því er erfitt að koma með eina góða setningu um hvað iðjuþjálfun er. Starfssvið iðjuþjálfa eru mörg t.d. endurhæfing, öldrunarsvið, geðheilbrigðisþjónusta, Sjúkratryggingar Íslands og grunnskólar, svo fátt eitt sé nú nefnt. Það er því óhætt að segja að skjólstæðingshópurinn sé breiður og á öllum aldri.
Á öllum sviðunum aðstoða iðjuþjálfar fólk við að finna lausnir við það sem það þarf að gera í daglegu lífi og vill gera, en getur ekki af einhverri ástæðu. Iðjuþjálfar t.d. þjálfa fólk upp eftir slys, útvega hjálpartæki, vinna með skerta félagsfærni og finna leiðir fyrir fólk að stunda sín áhugamál.
Hver er sérstaða iðjuþjálfa?
Iðjuþjálfar eru mikilvæg fagstétt af mörgum ástæðum. Þeir aðstoða einstaklinga við að finna jafnvægi í daglegu lífi, með því er átt við að jafnvægi sé á milli eigin umsjár, hvíldar, vinnu og tómstunda. Þetta jafnvægi hlýst m.a. með því að einstaklingurinn sé virkur í daglegu lífi af því leiti sem hann sjálfur er ánægður með. Iðjuþjálfar leggja áherslu á að finna út hvað kemur í veg fyrir eða ýtir undir að viðkomandi sé virkur í eigin lífi. Oft eru það þættir í umhverfinu sem koma í veg fyrir virkni og fulla þátttöku í samfélaginu t.d. er aðgengi víða ábótavant og skortur á þjónustuúrræðum. Iðjuþjálfar horfa því mikið til umhverfisins í stað þess að einblína eingöngu á skerðingar eða sjúkdómseinkenni.
Af hverju völdum við iðjuþjálfun?
Við völdum iðjuþjálfun því námið er fjölbreytt og starfsmöguleikar eru margir eftir nám. Sem iðjuþjálfar fáum við tækifæri til að vinna með fólki, taka þátt í breytingaferlinu með því og það er afar gefandi.
Helena Rós Þórólfsdóttir
María Svava Sigurgeirsdóttir
Patricia Huld Ryan