Skipulags- og umhverfisnefnd hefur lokið kynningu á breytingum aðal- og deiliskipulags Holtahverfis. Framkvæmdir við gatnagerð í Holtahverfi á Húsavík þar sem PCC Seaview Residences hf áætla að byggja íbúðarhúsnæði, ellefu parhús, hófust fyrir skemmstu.
Sjá einnig: Framkvæmdir við gatnagerð í Holtahverfi hafnar
Engar formlegar athugasemdir bárust við aðalskipulagsbreytinguna. Á hinn bóginn voru gerðar athugasemdir við deiliskipulagsbreytingarnar sem eiga að hluta til við um breytingu aðalskipulagsins. Í bókun segir að nefndin leggi til við sveitarstjórn að auglýst tillaga að aðalskipulagsbreytingu verði samþykkt eins og hún var kynnt og skipulags og byggingarfulltrúa falið senda tillöguna til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun.
Meðal athugasemda sem bárust vegna deiliskipulagsbreytingarnar var athugasemd í þremur töluliðum, undirrituð af 18 íbúum eða fasteignaeigendum í Holtahverfi. Þar er í fyrsta lagi sett út á tímasetningu kynningar skipulagslýsingar yfir jól og kynningarfundar 4. janúar. „Gagnrýndur er skortur á samráði við íbúa vegna fyrirhugaðra breytinga skipulagsins og fyrirliggjandi samningur við PCC SR um uppbyggingu í hverfinu,“ segir í athugasemdinni.
Þá eru íbúar ósáttir við að byggingafélög byggi upp stóran hluta íbúðahverfis. Íbúarnir óttast einsleitni í hverfinu auk þess sem búast megi við lágmarksgæðum húsa við slíka uppbyggingu. „Einkennilegt sé að troða litlum íbúðum í parhúsum inn á áður skipulagðar einbýlishúsalóðir. Einsleitar litlar parhúsaíbúðir án bílgeymslu falli illa að fyrirliggjandi byggð í Holtahverfi. Í breytingartillögunni felst léleg nýting bygingarlands því hvergi á Húsavík er að finna betra byggingarland fyrir einbýlishús á einni hæð en í Holtahverfi. Nægt rými sé fyrir litlar íbúðir í Reit.“
Deiliskipulagsbreytingin felur í sér 45 prósenta fjölgun íbúða í E-hluta Holtahverfis. Íbúarnir setja út á að í tillögunni að skipulagsbreytingum sé ekki fjallað um umhverfis- og samfélagsleg áhrif þeirra breytinga sem lagt sé upp með. Benda íbúar á að búast megi við stóraukinni umferð um hverfið. „Deiliskipulagsbreytingin feli í sér verulega rýrnun lífsgæða fyrir íbúa Holtahverfis,“ segir í athugasemdinni.
Einnig barst athugasemd frá íbúa á Stórhóli í tveimur liðum. Annars vegar setur íbúinn út á tímasetningu kynnigarinnar. „Tímasetning kynningar skipulagslýsingar og almenns kynningarfundar á jólum bendi til þess að sveitarstjórn kærði sig ekki um athugasemdir eða ábendingar íbúa vegna skipulagslýsingarinnar og sé á engan hátt í anda íbúalýðræðis. Það verði að teljast ámælisvert að sveitarstjórn Norðurþings hafi gert samkomulag við PCC Seaview Residences ehf um úthlutun lóða á E-svæði Holtahverfis þar sem horft er til uppbyggingar sem ekki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Ennfremur brjóti úthlutun lóða til PCC SR á eigin vinnureglum sveitarfélagsins um lóðarúthlutanir,“ segir í athugasemdinni. Þá bendir íbúinn á að aukning bílaumferðar um Þverholt og Baughól muni valda umtalsverðri aukningu í loft- og hávaðamengun við Baughól og Stórhól.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur ekki undir að tímasetning kynningar skipulagslýsingar og kynningarfundar hafi verið sérlega gagnrýniverð. „Skipulagslýsingin er einfalt skjal sem fyrst og fremst er ætlað kynna áætlan um að leggja fram skipulagstillögu og tilgreina hvernig fyrirhugað er að standa að vinnslu hennar. Lýsingin í þessu tilviki samanstóð af þremum myndskreyttum A4 blöðum af einföldum og fljótlesnum texta sem hægt var að nálgast um heimasíðu Norðurþings. Slík lýsing krefst varla langrar yfirlegu þeirra sem vilja kynna sér málið. Það er ekki skipulags- og umhverfisnefndar að fjalla sérstaklega um samkomulag Norðurþings við PCC SR, en á það bent að samkomulagið felur í sér eðlilega fyrirvara um afgreiðslu skipulagsbreytinga. Nefndin tekur ekki undir sjónarmið um að breytingartillagan feli í sér verulegar breytingar. Gatnakerfi er það sama og áður var, sem og lóðarskipan að mestu. Heimilað byggingarmagn í hverfum við Langholt (byggingarsvæði C, D & E) vex um 3,3% skv. útreikningum skipulagsfulltrúa og íbúðum fjölgar um 15 (16%).
Nefndin telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni,“ segir í bókun nefndarinnar.
Nefndin telur jafnframt að uppbygging lágreistra og lítilla parhúsa á 13 lóðum geti fallið prýðilega að þeirri byggð einbýlishúsa og raðhúsa sem fyrir er á svæðinu. Þá tekur nefndin undir sjónarmið íbúanna um að umrætt byggingarland henti vel undir einbýlishús ekki síður en parhús. „Við húsnæðisúttekt á síðasta ári kom hinsvegar skýrlega fram að skortur væri á minni íbúðum í sérbýli á Húsavík, en hér væri óvenju hátt hlutfall einbýlishúsa. Því var mótuð sú stefna að skynsamlegt væri að skipuleggja lóðir undir minni sérbýli eins og hér er horft til,“ segir í bókun. Nefndin telur athugasemdir um einsleitni íbúðasamsetningar ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir sjónarmið íbúa Stórhóls um að líkur séu til þess að umferð um Langholt aukist nokkuð vegna þeirra skipulagsbreytinga sem um ræðir. Nefndin telur hin vegar að skipulagsbreytingin muni hafa óveruleg áhrif á umferð um þegar byggðar íbúðargötur í Holtahverfi. „Nefndin getur á þeim grunni alls ekki tekið undir sjónarmið bréfritara um "stóraukna umferð" eða "umtalsverð umhverfis- og samfélagsleg áhrif". Almennt virðist ekki skynsamlegt að draga þá ályktun að breytingin muni fela í sér verulega rýrnun lífsgæða fyrir íbúa í Holtahverfi,“ segir í bókuninni.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á að fella niður ákvæði um lágmarkshalla þaka í því ljósi að þegar hefur ítrekað verið vikið frá þessu ákvæði. Þá fellst nefndin einnig á að á lóðinni að Lyngholti 26-32 verði gert ráð fyrir fjögurra íbúða raðhúsi með bílgeymslum eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir en á lóðinni að Lyngholti 42-52 megi byggja allt að sex íbúðir án bílgeymslu eins og kynnt var. Að öðru leiti leggur nefndin til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt og að gildistaka skipulagsins verði auglýst þegar samhliða auglýst aðalskipulagsbreyting hefur öðlast gildi.