Íbúar á Akureyri hafa aldrei verið fleiri

Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Íbúafjöldi Akureyrarbæjar þann 1. september sl. var 19.156 samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands og hafa íbúar sveitarfélagsins aldrei verið fleiri. Íbúum hefur síðustu sex mánuði fjölgað um 165. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Þjóðskrá tekur sérstaklega fyrir tímabilið frá 1. desember sl. en þá fjölgaði íbúum Akureyrarbæjar um eða 0,7% samanborið við 1% fjölgun á landsvísu. Íbúum fækkaði í 23 sveitarfélögum af 72 á þessu tímabili. Íbúafjöldi á Norðurlandi eystra í heild stendur hér um bil í stað.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að þessi þróun komi í sjálfu sér ekki á óvart. „Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá að íbúum Akureyrar fjölgar hægt og bítandi en ég á frekar von á því að þessi þróun verði hraðari á næstu misserum. Hér er gott að búa og samfélagið getur auðveldlega tekið á móti fleiri íbúum, hvort sem litið er til fjölbreyttrar þjónustu, húsnæðis eða annarra innviða,“ segir Ásthildur í samtali á vef bæjarins.

 


Athugasemdir

Nýjast