Íbúafundur Þróunarfélags Hríseyjar

Frá Hrísey.   Myndir  Vb og aðsend
Frá Hrísey. Myndir Vb og aðsend

Nýstofnað Þróunarfélag Hríseyjar hélt sinn fyrsta íbúafund um liðna helgi en Ásrún Ýr Gestsdóttir verkefnastýra verkefnisins Áfram Hrísey segir efni hans hafa verið að skapa  sameiginlegan skilning á tækifærum og ógnum og hvernig ólík félög geta unnið að sameiginlegum hagsmunum.

 Unnur Inga Kristinsdóttir, formaður Þróunarfélagsins fór yfir störf og tilgang félagsins. Þröstur Jóhannsson, skipstjóri á Hríseyjarferjunni, sagði frá nýjustu fréttum af ferjunni. Vegagerðin mun taka við rekstrinum og þakkaði Þröstur, fyrir hönd Andeyjar ehf, fyrir samstarfið við eyjaskeggja síðustu sex ár. Var klappað fyrir Þresti, Andey og ferjumönnum öllum.

Ásrún Ýr Gestsdóttir, verkefnisstýra Áfram Hrísey, fór yfir fyrsta starfsár verkefnisins og þau verkefni sem hún hefur tekist á við þar. Íbúum hefur fjölgað í Hrísey á árinu og mikill áhugi er á uppbyggingu í eyjunni.

Þó verkefninu ljúki næsta vor segir hún að búið sé að byggja upp grunn af upplýsingum og víðfemttengslanet sem myndi ekki hverfa með verkefninu, heldur skila sér inn í Þróunarfélagið.

 Margt í pípunum fyrir komandi ár

 Linda María Ásgeirsdóttir, formaður Ferðamálafélags Hríseyjar, fór yfir störf Ferðamálafélagsins. Hefur félagið unnið ötullega að uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins í Hrísey og komið eynni á kortið sem áfangastað fallegrar náttúru, fuglalífs og góðs matar. Ferðamálafélagið er sífellt að vinna að því að þróa vöruna Hrísey og er margt í pípunum fyrir komandi ár.

Að lokum fór Ingólfur Sigfússon, formaður Hverfisráðs Hríseyjar, yfir störf ráðsins og helstu verkefni. Hverfisráðið hefur unnið ýmis verk í samvinnu við Akureyrarbæ, eins og að skipulagi í eyjunni, uppbyggingu á Hátíðarsvæðinu, tillögum að verkefnum og ýmsu fleiru. Einnig hefur Hverfisráð veitt Akureyrarbæ ráðgjöf og aðstoð þegar við á. 

 Vel heppnaður fundur

Var íbúafundurinn vel heppnaður í alla staði og mæting góð. Ásrún Ýr segir fundargesti hafa haft orð á því að unnið væri að mun fleiri verkefnum en þeir höfðu gert sér grein fyrir og að fundurinn hafi verið upplýsandi. Þróunarfélagið stefnir að því að halda íbúafundi reglulega svo að öll þau sem búa í eða tengjast Hrísey geti fylgst betur með því sem unnið er að. „Bjartsýni og gleði eru þau orð sem lýsa Hrísey hvað best og takast Hríseyingar óhræddir á við verkefni framtíðarinnar,“ segir Ásrún Ýr.

 

Frá fundinum


Athugasemdir

Nýjast