Héraðsfréttablaðið Skarpur kemur út í dag eins og aðra fimmtudaga. Þar er að venju komið víða við. Fjallað er um fund þar sem hagsmunaaðilar , íslenskir og erlendir, komu saman á Húsavík til að fara yfir stöðuna í stórframkvæmdunum í Þingeyjarsýslu og bera saman bækur sínar þar um. Á sama fundi var fjallað um samfélagsmálin og hvernig bregðast þurfi við ýmsu sem upp kann að koma í kjölfar aukinna umsvifa og fólksfjölgunar.
Soffía Helgadóttir bæjarfulltrúi skrifar skarpa grein um ástandið í málefnum aldraðra á Húsavík og, það sem hún telur vera, svikin fyrirheit heilbrigðisráðherra í málaflokknum á staðnum.
Greint er frá heimsókn ungmenna frá Húsavík í sendiráð USA og samstarf þeirra við bandaríska jafnaldra á sviði umhverfismála með áherslu á hvali. Sagt er frá tilnefningu Norðursiglingar til einna æðstu ferðaverðlauna í heimi. Frétt er um fróman vilja Norðurþings til að leigja Norðurljós. Frjálsar íþróttir og TaeKvonDo koma við sögu, einnig sitthvað fleira og svo fastir liðir eins og venjulega. js