Sömuleiðis kom í ljós að þau höfðu fyrr í þessum mánuði brotist inn í sumarbústað í landi Halllands austan Akureyrar og dvalið þar í um viku tíma. Talsverðar skemmdir urðu á bústaðnum af þeirra völdum. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir tvímenningunum vegna rannsókna á málum þeirra og voru þau úrskurðuð í gæsluvarðhald til 26. september n.k. Þau hafa bæði komið áður við sögu lögreglu vegna afbrota.
Fjögur fíkniefnmál komu til kasta lögreglunnar á Akureyri um s.l. helgi. Þrjú mál komu upp á föstudagskvöld og eitt á laugardagskvöld. Framkvæmdar voru þrjár húsleitir og hald lagt á nokkra neysluskammta af bæði kannabisefnum, amfetamíni og kókaíni auk tækja og tóla til fíkniefnaneyslu. Þá voru tveir karlmenn handteknir í vikunni grunaðir um akstur bifreiða undir áhrifum fíkniefna. Á laugardagskvöld stöðvaði lögreglan fíkniefnapartý í húsi á Akureyri. Þar hafði staðið yfir neysla fíkniefna sem leystist upp þegar lögreglan kom á vettvang. Þar var lagt hald á nokkra neysluskammta af fíkniefnum og tæki og tól til neyslu þeirra. Lögreglan biðlar áfram til almennings um að notfæra sér fíkniefnasímann 800-5005 til að koma á framfæri upplýsingum varðandi meint fíkniefnamisferli.