Í fangelsi fyrir ölvunarakstur

Miðbær Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson
Miðbær Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson

Fimmtugur karlmaður á Akureyri hefur verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir ölvunarakstur í mars sl. Ákærði ók bíl sínum frá Ráðhústorgi á Akureyri og um götur bæjarins þar til lögreglan stoppaði hann við Þórunnarstræti. Fyrir dómi neitaði ákærði sök. Hann greindi frá því að hann hafi umræddan dag hafið áfengisneyslu um hádegisbilið og drukkið sterkt áfengi og að lögreglumenn hefðu haft afskipti af honum umrædda nótt.

Hann staðhæfði hins vegar að það hafi gerst við heimili hans, nánar tiltekið á bifreiðastæði, þar sem hann var að þrífa bílinn. Nánar lýsti ákærði atvikum þannig að hann hafi verið að þurrka rúður bifreiðarinnar með miðstöðinni og því haft mótorinn í gangi. Við þessar aðstæður hafi hann skyndilega orðið var við komu lögreglumannanna, en af þeim sökum hafi hann drepið á mótor bifreiðarinnar og stungið lyklunum í vasann en þá verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

Framburður lögreglumannanna var hins vegar skýr og er einkar trúverðugur og að auki í samræmi við myndskeið úr upptökubúnaði lögreglubifreiðar sem sannað sekt mannsins. Ákærði á langan sakaferil að baki, m.a. vegna ítrekaðra ölvunarakstra og annarra umferðarlagabrota, auk þjófnaðar. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

throstur@vikudagur.is

 

Nýjast