Hymnodia í tónleikaferð til Noregs

Kór Hymnodiu. Mynd/Daníel Starrason
Kór Hymnodiu. Mynd/Daníel Starrason

Kammerkórinn Hymnodia hélt utan til Noregs í vikunni til samstarfs og tónleikahalds með tveimur norskum þjóðlagatónlistarmönnum, Steinari Strøm harðangursfiðluleikara og Haraldi Skullerud slagverksleikara. Haldnir verða þrennir tónleikar í ferðinni, í Ósló, Kongsberg og Eggedal. Í fréttatilkynningu segir að Ísland og Noregur eigi sér sameiginlegan menningararf sem birtist augljóslega í tungumálinu og ýmsum þjóðareinkennum.

„Langur aðskilnaður gerði hins vegar að verkum að þjóðlögin þróuðust í ólíkar áttir með þessum tveimur frændþjóðum og því er áhugavert að tefla saman þessum tveimur ólíku hefðum. Það er meginmarkmið
samstarfs Hymnodiu og Norðmannanna tveggja. Hugmyndina að samstarfinu átti Akureyringurinn og tónskáldið Gísli Jóhann Grétarsson sem nú býr í Noregi og stýrir þar þjóðlagasetrinu í Buskerud, Folkemusikksenteret
i Buskerud. Gísli Jóhann aflaði styrks til samstarfsins sem dugði til að greiða fyrir ferð Norðmannanna til Íslands í nóvember í vetur þegar þeir félagarnir æfðu með Hymnodiu og héldu tvenna tónleika með
kórnum, í Akureyrarkirkju og Tjarnarborg í Ólafsfirði. Þar fékk Hymnodia að spreyta sig á norskum þjóðlögum og þeir Steinar og Harald á íslenskum.

Bæði léku þeir einir saman, Hymnodia ein og svo kórinn og norsku gestirnir saman. Svipaður háttur verður hafður á í Noregsferðinni þótt efnisskráin verði ekki nákvæmlega sú sama. Þar verður meira unnið með íslensku tvísöngshefðina til dæmis. Yfirskrift tónleikanna í Noregi verður „I flaggets farger“. Fánar Íslands og Noregs eru í sömu litum þótt samsetningin sé önnur. Það endurspeglar ef til vill vel þessa ólíku þjóðlagahefð landanna sem þó er af sömu rótum og kemur nú saman á ný í meðförum Hymnodiu og þeirra Steinars og Haralds. Steinar Strøm harðangursfiðluleikari er arkitekt að mennt og einnig óðalsbóndi í Sigdal. Hann er sprottinn alskapaður út úr norsku hefðinni, lærði á fiðluna með sama hætti og verið hefur kynslóðum saman, kann ekki nótur, hugsar ekki um takt með sama hætti og klassískt menntað tónlistarfólk og því birtist norska þjóðlagahefðinóbrengluð í leik hans.

Harald Skullerud er maður beggja heima, hefurhlotið klassíska menntun en vegur á magnaðan hátt upp þann stranga takt sem við erum vön í flestri tónlist,“ segir í tilkynningu frá Hymnodiu. Tónleikarnir verða sem hér segir: 27. feb. kl. 19:00 í Gamle Aker kirke í Ósló, 28. feb. kl. 17:00 í Eggedal kirke og 1.mars kl. 16:00 í Kongsberg kirke.

Nýjast