Veitingamaður á Akureyri hefur í hyggju að lögsækja Akureyrarbæ vegna framgöngu bæjarins í lóðamálum við Sómatún í Naustahverfi. Við Sómatún voru auglýstar samkvæmt deiliskipulagi lóðir fyrir einbýlishús á einni hæð. Einum þeirra sem fékk lóð við götuna tókst hinsvegar að finna einhverja smugu og nýtti sér hana til að fá samþykkt að hann gæti byggt á tveimur hæðum.
Aðrir tilvonandi íbúar við götuna eru mjög óhressir og var gerningurinn kærður til umhverfis- og skipulagsnefndar sem sagði að bygging tveggja hæða húss á þessum stað væri ekki leyfileg. Þá komu æðstu yfirvöld bæjarins til skjalanna og auglýstu breytingu á deiliskipulaginu sem gerði það leyfilegt að hafa tveggja hæða byggingu þá sem styrinn stóð um. Nú hefur einmn húseigandinn við göruna lýst því yfir að hann ætli í mál við bæinn, hann vill að bærinn kaupi hús sitt við Sómatón og byggi fyrir sig hús á öðrum stað í bænum.