Hví ekki gefa notað í jólagjöf?!

Dagný Fjóla Elvarsdóttir, annar eigandi Aftur Nýtt.
Dagný Fjóla Elvarsdóttir, annar eigandi Aftur Nýtt.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Aftur Nýtt er verslun sem býður fólki að leigja bás og selja fyrir þá fatnað og allskyns heimilsvörur sem eru ekki í notkun lengur. Með þessu móti græða allir, fólk nær að selja eigur sem það hefur ekki not eða pláss fyrir og annar aðili kaupir ódýra notaða vöru.

Endurnýting sem allir græða á

Dagný Fjóla Elvarsdóttir og Brynjar Ingi Hannesson, eiginmaður hennar, stofnuðu Aftur Nýtt fyrir rúmu ári síðan. Dagný segir reksturinn ganga vonum framar og er spennt fyrir framhaldinu. Aftur Nýtt sérhæfir sig í að selja notaðar vörur fyrir fólk. Bókun bása er í gegnum heimasíðu verslunarinnar, fólk sér um sjálft um verðmerkingar varanna og uppsetningu bása.

Verslunin opnaði 27. október 2018 í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð á Akureyri og fagnaði því eins árs afmæli fyrir rúmum mánuði. „Þetta hefur gengið svakalega vel,“ segir Dagný. Hún segir básana yfirleitt fullbókaða og biðlisti sé eftir plássi. Í boði er mislangur leigutíma á básum, allt frá viku upp í 35 daga. Dagný segir langalgengast að fólk leigi sér bás í tvær vikur. „Sumir eru með mikið af vörum og taka því 35 daga leigu, sem borgar sig.“

Hugmyndin sprottin frá vorhreingerningum

Þegar Dagný er spurð um hugmyndina að rekstrinum segir hún að þau hjónin hafi verið í vorhreingerningum árið 2018 og selt mikið af notuðum fötum og vörum á Facebook. „Það var mikil vinna,“ segir Dagný, „og margir ókunnugir komu heim til okkar, sem getur verið lýjandi.“ Eftir þetta fengu þau þá hugmynd að opna verslun sem selji notaðar barnavörur. Þau voru einnig innblásin af Kolaportinu og Barnaloppunni sem er samskonar verslun í Reykjavík. Á Akureyri var engin verslun með sama sniði og því fannst þeim þetta kjörið tækifæri. Í upphafi seldi verslunin einungis barnavörur en í dag selja þau einnig fullorðins föt og allskonar heimilisvörur.

Dagný segir Akureyringa og einnig utanbæjarfólk nýta sér verslunina, bæði með því að leigja bás og koma við þegar farið er í bæjarferðir.

Notaðar flíkur í jólagjöf

„Ég spyr oft fastakúnnana sem ég þekki hvort þau séu að kaupa jólagjafir,“ segir Dagný. Hún segir gaman þegar fólk er að versla notaðar vörur í stað nýrra til að gefa. „Það er dýrt að kaupa allt nýtt,“ segir Dagný. „Sem dæmi barnaföt eins og nýtt útifatasett, regnföt, galli, kuldaskór og stígvél geta verið mjög dýrar vörur, sérstaklega þegar verið er að kaupa á fleiri en eitt barn.“ Dagný segir í tísku að kaupa notuð föt. „Vonandi fjarar þessi tíska ekki út, við viljum halda þessu áfram.“

Aftur Nýtt heldur úti heimasíðu þar sem hægt er að skoða verðskrá leigutíma og hún býður einnig uppá leitarvél til að fletta upp á vörum sem eru til sölu í búðinni. Facebook síða búðarinnar er mjög virk og þar koma reglulega myndir af vörum í búðinni. Dagný segir ekkert mál að hringja og borga símleiðis ef fólk kemst ekki í verslunina.

Dagný og Brynjar tóku nýlega við tveimur öðrum verslunum í Sunnuhlíð, Græna Unganum, barnavöruverslun og gjafavöruversluninni Kerti og Spil. Jólavertíðin er hafin hjá þeim og nóg er að gera.

-IHJ


Athugasemdir

Nýjast