Hvetja til „slaka“ svo Húsvíkingar geti sofið út

Á byggðarráðsfundi Norðurþings í gær, fimmtudag var tekið fyrir erindi frá Silju Jóhannesdóttur stjórnarmeðlim í Húsavíkurstofu og Hinriki Wöhler forstöðumanni Húsavíkurstofu um leyfi til að setja upp „rauðan dregil“ í miðbæ Húsavíkur í tengslum við Óskarsverðlaunaafhendinguna í lok apríl. Eins og Húsvíkingar og alþjóð veit er lagið „Húsavík My Hometown“ úr kvikmyndinni „Eurovision Song Contest The Story of Fire Saga“ tilnefnt til Óskarsverðlauna.

Í erindinu er jafnframt óskað eftir styrk í formi aðkomu starfsmanna þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins að framkvæmd verkefnisins.

„Byggðarráð tekur jákvætt í skemmtilegt erindi og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir,“ segir í bókun ráðsins um málið.

Hjálmar Bogi Hafliðason, fulltrúi B-lista lagði jafnframt fram bókun sem var samþykkt en þar hvetur Hjálmar til þess að fyrirtæki og stofnanir veiti „ákveðin slaka“ til þess að Húsvíkingar fái að sofa lengur að morgni mánudagsins 26. apríl. Óskarsverðlaunahátíðin fer einmitt fram aðfararnótt þess dags.  

Bókun Hjálmars í heild:
„Aðfararnótt mánudagsins 26. apríl næstkomandi kemur Óskarinn hugsanlega heim til Húsavíkur. Því má gera ráð fyrir að margir bæjarbúar verji spenntir þeirri nótt við áhorf. Það er lag að fyrirtæki og stofnanir veiti því ákveðinn slaka að morgni þessa dags þannig að bærinn vakni aðeins seinna inn í tilveruna þennan daginn.
Benóný, Hafrún, Helena, Kristján og Kolbrún Ada taka undir bókunina.“


Athugasemdir

Nýjast