Hvert er ferðinni heitið?

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Var að lesa yfir viðtöl í Vikudegi við forystufólk bæjarstjórnarflokkanna hér á Akureyri. Þau voru beðin að spá í spilin um hvaða málefni væru, eða þyrftu að vera, í forgangi á næstunni. Mér þótti þetta ágæta fólk fara mjög með löndum í svörum sínum og var litlu nær um hvaða mál væru að þeirra mati efst á baugi þegar til lengri tíma er litið. Þau voru öll mjög upptekin af því að lemja á ríkisvaldinu að standa við sína samninga sem er auðvitað eitt af því sem alltaf er og ávallt verður á dagskrá.

Ennfremur var minnst á þann vegsauka fyrir bæinn að flytja stofnanir og fólk hálfgerðum hreppaflutningum hingað í anda þeirrar minnimáttarkenndar að allt verði að gera til að rétta hlut landsbyggðarinnar. Að mínum dómi er lítil reisn yfir því. Forystufólkið var auk þess sammála um að auka vellíðan bæjarbúa á öllum sviðum, bæta þjónustu bæjarins og öryggi íbúa sem eru auðvitað allt sjálfsagðir hlutir og enginn ágreiningur um. Þegar ég leitaði eftir því í svörum bæjarfulltrúanna hvernig ætti að efla atvinnulífið til að skapa meiri verðmæti og fá auknar tekjur svo unnt verði að standa undir öllu saman komu frasar um að skapa svigrúm og tækifæri fyrir fyrirtæki til að auka starfsemina, styðja við fólk sem vill hefja eigin atvinnurekstur, efla hvers kyns frumkvöðlastarfsemi o.s.frv.

Ekki gat ég séð nokkur merki þess hvernig bæjarstjórnarfólkið hugsar sér að standa að því að framkvæma ofangreind markmið, bara almenn orð og búið. Enginn þeirra gat um tiltölulega nýsamþykkta atvinnustefnu bæjarins þar sem reynt var af veikum mætti að skilgreina hvað ætti að leggja áherslu á í frekari atvinnuuppbyggingu. Að mínum dómi þarf að vinna það plagg mun betur þannig að það standist einhvern samanburð við vandaða atvinnustefnu bæjarins frá árinu 1999. Hún komst að vísu aldrei til framkvæmda. Hefði það hins vegar gerst hefðu göfug markmið eins og að auka svigrúm og tækifæri fyrirtækja, að efla nýliðun í rekstri og styðja frumkvöðla frekar orðið að veruleika.

Því miður var sú góða stefna eingöngu orðin tóm og áfram haldið að jarma í ríkisvaldinu um bjargráð og eddingar að sunnan. Mér sýnist að enn sé verið að höggva í þann sama knérunn. Reynslan sýnir ótvírætt að ekki nægir að móta stefnu sem fara á eftir ef hún gleymist áður en blekið er þornað á pappírnum. Eftir áralangt starf liggur nú fyrir glænýtt skipulag miðbæjarins sem flestir hafa fagnað. Eitt af því sem þar var ákveðið var að mynda greiða leið frá Skátagili austur að höfninni. Þetta er eitt af grundvallaratriðum nýja skipulagsins. Þar af leiðandi var gert ráð fyrir að fjarlægja gamla Brauns-verslunarhúsið og gera þar gangstíg. Nú hefur bæjarstjórn samþykkt að endurbyggja þetta hús ar sem það stendur og koma þannig í veg fyrir að stígurinn verði að raunveruleika um ókomna tíð.

Þetta ráðslag er með þeim ólíkindum að maður spyr sig hreinlega hvort hægri hönd bæjarstjórnar hafi enga hugmynd um hvað sú vinstri gerir. Að þessu sögðu er eðlilegt að spyrja hvers vegna bærinn okkar er að leggja fram mikið fé og mikla vinnu við að móta stefnu í stórum málaflokkum ef niðurstöðurnar hverfa strax í gleymskunnar dá? Síðan verður allt með sama hringlandahætti og áður sem ég var að vona að heyrði fortíðinni til.

Höfundur er kaupmaður á Akureyri.

Nýjast