Hvers vegna?

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Árið 2004 stofnuðu nokkur fyrirtæki og einstaklingar sjálfseignarstofnunina Akureyri í öndvegi (AÖ) í þeim tilgangi að koma góðu til vegar við uppbyggingu miðbæjarins. Ekki datt mér í hug þá að sextán árum síðar væri enn nauðsynlegt að stinga niður penna um þetta málefni nema þá kannski til að fagna uppbyggingu glæsilegs miðbæjar sem risið hefði upp í samræmi við einróma samþykkt bæjarstjórnar árið 2014.  En því miður eru slík fagnaðarlæti ótímabær því ekkert hefur gerst síðan utan það eitt að nú á miðri jólaföstu kynnti bæjarstjórn breytingatillögur sínar á skipulagi sem aldrei hefur komist í framkvæmd. Ekki var talin ástæða til að hafa samband við bæjarbúa um þessar breytingar fyrirfram en þær einasta kynntar fullmótaðar. Eftir að hafa skoðað þær tel ég nauðsynlegt að rifja upp aðdraganda málsins og nokkrar sögulegar staðreyndir enda sýnist mér bæjarfulltrúum ekkert veita af því.

Íbúaþing mótaði meginlínur

Í upphafi kostaði AÖ miklum fjármunum til við vandað ibúaþing þar sem reynt var með almennri umræðu að laða fram það sem bæjarbúar vildu leggja áherslu á við endurnýjun miðbæjarins. Þingið var fjölmennt og þátttakendur mjög  virkir. Þarna var mótuð stefna sem í meginatriðum snerist um:  Að nýjar götur austan Skipagötu og byggingar við þær snéru austur-vestur til að mynda skjól gegn ríkjandi vindáttum. Með því sáu þátttakendur jafnframt að unnt væri að koma óskum þeirra um greiðar leiðir frá miðbænum til sjávar í framkvæmd. Enn fremur var rík áhersla lögð á að þessar nýju byggingar yrðu lágreistar og tækju sem mest mið af þeim byggingum sem fyrir eru í miðbænum. Þetta var svo það veganesti sem AÖ lagði fram til viðmiðunar þegar efnt var til alþjóðlegrar samkeppni meðal arkitekta um tillögur um uppbyggingu miðbæjarins. Alls bárust 152 vandaðar tillögur sem AÖ gaf bænum til þess að hafa til hliðsjónar við endanlega útfærslu. Ein tillagan var valin best af sérstakri dómnefnd og hún höfð til viðmiðunar þegar stýrihópur mótaði tillögur að miðbæ árið 2010 og síðan lagðar fram til umsagnar bæjarbúa.  Skemmst er frá að segja að töluverð andstaða var meðal þeirra um einn þátt tillagnanna - gerð síkis upp að Skipagötu. Þar með var málið komið í sjálfheldu og lítið gerðist. Þá tóku tveir foringjar í bæjarstjórn - Logi Einarsson og Oddu Helgi Halldórsson - málið upp með sínu fólki og leituðu lausna sem flestir gætu sætt sig við. Þetta tókst og að lokum var niðurstaðan samþykkt samhljóða í bæjarstjórn árið 2014 sem deiliskipulag miðbæjarins. Þetta frumkvæði þeirra Loga og Odds Helga er að mínum dómi eitt ágætasta verk sem unnið hefur verið í bæjarstjórn Akureyrar hin síðari ár og glæsileg arfleifð þeirra félaga. Nú er hins vegar að henni vegið og það jafnvel af þeirra eigin félögum til þess eins að þjóna lund annarra.

Ferilskrá gildandi miðbæjarskipulags

            2004                Akureyri í öndvegi (AÖ) stofnað og meginlínur um nýskipan miðbæjarins mótaðar á fjölmennu íbúaþingi.

            2005                Alþjóðleg arkitektasamkeppni. AÖ kynnir 152 tillögur keppninnar fyrir bæjarbúum og gefur Akureyrarbæ.

            2006-2009       Unnið að nýju deiliskipulagi á vegum bæjarins.

            2010                Lögð fram tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins. Andstaða kom fram hjá bæjarbúum og málinu frestað.

            2012-2013       Verkefnið tekið upp aftur og unnið að endurbótum sem sátt náðist um.

            2014                Lagðar fram tillögur um nýtt deiliskipulag miðbæjarins með ítarlegri greinargerð sem samþykktar voru samhljóða í                                     bæjarstjórn 6. maí.

            2016 -2019      Byggingaframkvæmdir við íbúðarhús sunnan Torfunefs.

Akureyri í öndvegi safnaði og lagði fram nálægt eitt hundrað milljónir króna á  núgildandi verðlagi til að kosta íbúaþing, arkitektasamkeppnina, kynningu á     tillögum keppninnar og ýmislegt fleira vegna verkefnisins. Þá er ekki talin upp gríðarleg sjálfboðavinna fjölmargra á vegum AÖ.  Nærri lætur að Akureyrarbær        hafi lagt út svipaða fjármuni vegna vinnu við gerð gildandi miðbæjarskipulags. 

Farsæl niðurstaða hundsuð

Um nokkurt skeið hafa Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn þrástagast á að allt of dýrt sé að færa Glerárgötuna, frá Kaupvangsstræti til Strandgötu, um nokkra metra til austurs enda þótt að það sé forsenda aukningar byggingamagns þar fyrir vestan um heila 5000 fermetra eins og núgildandi skipulag gerir ráð fyrir. Samkvæmt viðurkenndum útreikningum munu þau aukaútgjöld sem af tilfærslunni leiða skila samsvarandi tekjum til baka á nokkrum árum vegna gatnagerðar- og fasteignagjalda á umræddu svæði. Fyrr en varir verður þessi viðbót, vegna færslu götunnar og mjókkun í eina akrein til beggja átta, tekjustofn fyrir bæjarsjóð í áratugi en ekki bara útgjöld eins og ranglega hefur verið haldið fram. Eftir því sem næst verður komist er einmitt þessi þráhyggja Sjálfstæðismanna og undanlátssemi annarra við hana megin ástæða þess að bæjarstjórn lætur sig hafa að leggja til að umbylta gildandi skipulagi fyrir vestan Glerárgötuna, klessa öllu saman og hækka húsin um allt að tvær hæðir.  Með því er gengið í berhögg við vilja íbúaþingsins auk þess sem afrakstri farsæls starfs Loga og Odds Helga er gefið langt nef.  Tekið skal fram að þessi þjónkun við Sjálfstæðismenn kom til áður en allir fóru undir eina sæng í bæjarstjórninni í haust enda taldi ég strax að þær pólitísku bólfarir sættu litlum tíðindum. Þetta hefur lengi verið svona - ótrúlegasta fólk buktar sig fyrir Sjálfstæðismönnum hér í bæ og telja höfuðnauðsyn að samþykki þeirra liggi fyrir í sérhverju sem gert er - jafnvel þótt þeir séu í minnihluta.     

Þöglir bæjarfulltrúar

Nú er sem sagt stefnt að því að fækka gönguleiðum frá gamla miðbænum til sjávar, gera syðri hluta Skipagötunnar að mikilli akstursleið suður-norður og hækka húsin um allt að tvær hæðir. Í stað þess að þrengja Glerárgötuna í eina akrein frá Torfunefi og norður að Strandgötu á nú að gera það aðeins á nokkrum metrum sitt hvorum megin við göngustíginn vestan Hofs.  Verða bílar þar í fjórum fylkingum beggja megin við sem þýðir að gangandi fólk hefur þá mengandi og hljóðandi ofan í sér. Gæfulegra væri að fylgja gildandi skipulagi og  þrengja götuna norðar og sunnar þannig að bílar hægi þar á sér og fari síðan hægt í gegnum þetta hjarta miðbæjarins en hrúgist ekki saman á litlum bletti. 

Fullyrða má að allar þessar ráðstafanir sem hafa verið kynntar eru í andstöðu við óskir íbúaþingsins og því lítil ástæða til að fagna þeim. Ekki ætti að vera til of mikils mælst að fá fram smá rökstuðningi fyrir þessum ósköpum frá bæjarfulltrúum sem hingað til hafa ekkert, nákvæmlega ekki neitt, tjáð sig um þessi mál opinberlega og alls ekki velt upp rökum með eða á móti við bæjarbúa.  Þess í stað halda þeir öllu þétt að sér eins og um einkamál sé að ræða. Sjá enga ástæðu til að skiptast á skoðunum við bæjarbúa um málefnið áður en ákvarðanir eru teknar - öfugt við það sem gert var á íbúaþinginu sæla.

Stóra spurningin

Nú standa bæjarbúar sem sagt frammi fyrir því að vilji þeirra og félaganna Loga og Odds Helga um uppbyggingu miðbæjarins hefur verið veginn og léttvægur fundinn af bæjarstjórn.  Ef ég þekki Akureyringa rétt kæmi mér á óvart ef þeir gera ekki alvarlegar athugasemdir við þessi ólýðræðislegu vinnubrögð og óásættanlegu niðurstöðu. Enn stendur eftir spurningin: Hvers vegna þessi ógæfulega vegferð án sýnilegs tilefnis?

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast