Hverfisnefnd hefur áhyggjur af frágangi húsa og húsgrunna

Fulltrúar hverfisnefndar Naustahverfis mættu á fund skipulagsnefndar Akureyrar í vikunni en þeir eru mjög ósáttir við stöðu framkvæmda í hverfinu. Þeir hafa áhyggjur af frágangi húsa og húsgrunna m.a. vegna slysahættu.  

Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að framkvæmdir í Naustahverfi séu mislangt komnar sem sé bagalegt fyrir þá íbúa sem nú þegar eru fluttir í eignir sínar næst ófrágengnum grunnum.
Ennfremur segir í bókun skipulagsnefndar: "Í ljósi þessa tók embætti skipulagsstjóra í samráði við skipulagsnefnd þá ákvörðun sumarið 2008 að senda út viðvörunarbréf til þeirra lóðarhafa þar sem m.a. öryggisþáttum var ábótavant. Nú þegar hafa slík bréf verið send út til þessara lóðarhafa þar sem krafist er úrbóta.
Þar sem umbeðnum úrbótum hefur ekki verið sinnt í öllum tilvikum var talið nauðsynlegt að fara í lögformlegt dagsektarferli. Slíkt ferli getur tekið talsverðan tíma áður en úrbætur geti átt sér stað. Gera má ráð fyrir að vel flestir lóðarhafar muni ljúka þeim innan tilskilins frests eða á tímabilinu frá miðjum janúar til marsloka 2009. Að öðrum kosti mun Akureyrarbær sjá um úrbæturnar ef nauðsyn krefur á kostnað lóðarhafa og krefjast dagsekta sem eru 25 þúsund krónur á dag."

Nýjast