Hver ræður för?

Guðmundur B. Guðmundsson skrifar

Nú þegar styttist í íslensku knattspyrnuvertíðina ríkir óvissa um ástand mannvirkja á knattspyrnuvöllum félaganna hér á Akureyri.  Nýbyggð stúka á Þórsvellinum hefur orðið fyrir allnokkrum skemmdum vegna vatnsleka og óvíst hvort hægt verði að nýta hluta af búningaaðstöðu stúkunnar.  Á fundi Fasteigna Akureyrarbæjar, í liðinni viku, var samþykkt samkomulag milli Akureyrarbæjar, verktaka og hönnuða um skiptingu kostnaðar við úrbætur.  Ljóst er að hér var um að ræða sátt, þar sem Akureyrarbær varð að gefa nokkuð eftir miðað við úttekt dómskvaddra matsmanna, en mikilvægt var að höggva á hnútinn þannig að hægt verði að ráðast í framkvæmdirnar án frekari tafa.

Akureyrarvöllur í uppnámi

Vond er sú staða sem KA stendur frammi fyrir varðandi stúku á Akureyrarvelli. Unnið hefur verið að endurbótum í samræmi við samkomulag sem bærinn gerði við KA varðandi aðstöðu félagsins á Akureyrarvelli. Endurbæturnar hafa miðað að því að koma til móts við kröfur Knattspyrnusambands Íslands varðandi ástand og umgjörð knattspyrnuvalla. Akureyrarbær lagði í framkvæmdirnar í samvinnu við KA og gert var ráð fyrir framlagi frá KSÍ vegna þeirra. Þar sem misskilnings virtist gæta varðandi framlagið var krafa KSÍ um aðskilin sæti í stúku sett í salt. Nú er ljóst að ef KA á að fá að spila heimaleiki sína á vellinum í sumar þá þarf a.m.k. 300 aðskilin sæti í stúku og engar refjar. Ég hef um árabil sótt knattspyrnuleiki hjá KA og sé ekki þörf á slíkri sætaskipan en sjálfsagt hefur KSÍ sínar ástæður.  Í samtali við Vikudag í sl. viku talar framkvæmdastjóri KSÍ að um leið og staðfesting liggi fyrir um uppsetningu á sætum þá komi fimm milljónir króna frá sambandinu.  Í ljósi sögunnar þótti fulltrúa okkar framsóknarfólks í Fasteignum Akureyrarbæjar rétt að bóka að nauðsynlegt væri að fyrir lægi skriflegt samkomulag þar um. Mikilvægt er að málið leysist áður en boltinn fer að rúlla í vor. 

Kostnaðarsamar kröfur KSÍ

Kröfur KSÍ um mannvirki á knattspyrnuvöllum, sem skjóta upp kolli árlega, vekja upp spurningar um hver ræður för.  Sífellt auknar kröfur hafa á liðnum árum kostað sveitarfélög ómældar upphæðir.  Íþróttafélögin sjálf eru í engum efnum til að uppfylla kröfur KSÍ og því lendir sífellt meiri kostnaður á sveitarfélögum.  Kröfur KSÍ til knattspyrnuvalla í efstu deild er að mínu mati afar strangar, en þeir eiga, skv. reglugerð sambandsins, að hafa á bilinu 500-1500 aðskilin, númeruð og að hluta til yfirbyggð sæti.  Þetta þýðir að þegar KA tekur sæti í efstu deild, vonandi á næsta ári, þá þarf að ráðast í frekari framkvæmdir með fleiri sætum og þaki á stúku. Allt þetta kemur til með að kosta tugi milljóna sem að óbreyttu þarf að taka af skattpeningum okkar bæjarbúa.  Já tugmilljónir settar í þak sem veitir áhorfendum skjól fyrir hugsanlegri rigningu 12-15 sinnum á ári í tæpa 2 tíma í senn.  Já dýrt er drottins orðið! 

En KSÍ vill gæta sanngirni og er heimilt að veita félögum sérstakan aðlögunartíma, ef samþykktur leikvangur finnst ekki innan hæfilegrar fjarlægðar frá aðsetri félags, líkt og Þór fékk síðastliðið sumar. Þannig er hægt að slá kostnaðarsömum framkvæmdum á frest tímabundið, en hætt er við að engin miskun verði sýnd þegar Þór nær sæti í efstu deild á ný. Þak skal þá byggt á stúkuna að öðrum kosti gæti félagið þurft að leika heimaleiki sína fjarri heimahögum. Já því miður virðist KSÍ ráða för.

Mikilvægt að sporna við

En hvað er til ráða?  Getur KSÍ sett slíka afarkosti?  Hver á að borga brúsann?  Verða kröfur KSÍ til þess að þvinga fram sameiningu félaga eða a.m.k. samnýtingu mannvirkja?  Þetta eru spurningar sem við sveitarstjórnarmenn stöndum frammi fyrir og hafa umræður verið um þessi mál meðal annars á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikilvægt er að mínu mati að sveitarfélög sameinist í aðgerðum en lítið hefur gerst og því standa þau ráðþrota gagnvart þessu ofurvaldi KSÍ.  Ég vil hér með skora á bæjarstjóra Akureyrar að taka þetta mál til umfjöllunar á vettvangi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fylgja því eftir þannig að ljóst verði hver ræður för í fjármálum sveitarfélaga.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknarflokks.

 

Nýjast