Hvattir til að velja aðra kosti en nagladekk

Margir eru eflaust farnir að huga að því að skipta yfir á vetrardekk.
Margir eru eflaust farnir að huga að því að skipta yfir á vetrardekk.

Íbúar á Akureyri eru beðnir um að hugleiða og meta fyrir sig hvort nagladekk séu nauðsynleg eða hvort mögulegt sé að velja aðrar tegundir hjólbarða og stuðla þannig að bættum loftgæðum og minni hávaða á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Á þessum árstíma má búast við því að margir bifreiðaeigendur hugi að því að skipta yfir á vetrardekk. Á Íslandi eru nagladekk almennt bönnuð frá 15. apríl til og með 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars.

74% aka um á nagladekkjum

„Akureyrarbær vill hvetja þá sem mögulega geta til þess að velja aðra kosti,“ segir á vef bæjarins. Síðastliðin fimm ár hafa að meðaltali 74% bifreiðaeigenda á Akureyri ekið um á negldum hjólbörðum og hefur notkun aukist verulega undanfarin tvö ár. Á Akureyri mælist svifryk of oft yfir heilsuverndarmörkum og eiga nagladekk sinn þátt í því. Þau valda auk þess hávaða og slíta malbiki margfalt hraðar en önnur dekk, sem hefur í för með sér aukinn viðhaldskostnað.

„Á Akureyri, og einkum á hálendisvegum í nágrenninu, getur verið flughált og jafnvel þungfært á veturna og því er mikilvægt að vera á góðum og öruggum dekkjum. Ýmsar tegundir vetrarhjólbarða eru í boði sem hafa mismunandi áhrif á umhverfið. Má þar nefna loftbóludekk, harðkornadekk, harðskeljadekk, heilsársdekk með djúpu mynstri og nagladekk,“ segir á vef Akureyrarbæjar.


Nýjast