02. febrúar, 2007 - 14:42
Fréttir
Ökumaður bifreiðar sem ekið var upp að lögreglubifreið á gatnamótum Drottningarbrautar og Kaupvangsstrætis á Akureyri aðfaranótt 18. júní á síðasta ári, skrúfaði niður bílrúðu sína og spurði lögreglumennina hvað væri langt til Akureyrar! Lögreglan ræddi við manninn sem virtist í annarlegu ástandi og reikull á fæti og var hann síðar vistaður í fangageymslu. Dómur er nú fallinn í máli mannsins í Héraðsdómi og kom fram í dómnum að í blóði mannsins hafði mælst alkóhól, amfetamín og kókaín m.a. Við meðferð blóðprufu mannsins virtist hins vegar eitthvað hafa farið úrskeiðis þar sem enginn aðili gat staðfest niðurstöðurnar óyggjandi. Maðurinn var því sýknaður af því að aka undir áhrifum áfengis og lyfja, en dæmdur í 45 þúsund króna sekt vegna fíkniefna sem fundust á honum.