Hva, varstu ekki að fá barnabætur?
Mikið agalega er ég orðin þreytt á þessari athugasemd frá fólki við einstæða foreldra sem heldur að maður detti í einhvern svakalegan lottópott fjórum sinnum á ári. Jú, ég fékk, já, eða fékk ekki barnabætur um mánaðamótin þar sem þeim hefur þegar verið ráðstafað inn á greiðsluþjónustuna mína. En alltaf heldur fólk að einstæðir foreldrar hafi það svo gott. Það mætti halda að fólk vissi ekki hvað það kostar að vera með barn, já, eða börn. Ég er nú ein af þeim mæðrum sem læt barnið mitt ALLTAF ganga fyrir í einu og öllu og þannig á það að vera. En svo fæ ég barnabætur sem ég tók fram að ég hafi fyrirfram ráðstafað í greiðsluþjónustuna til að lækka mánaðarleg útgjöld. Allt í lagi með það.
Það er samt ekki svo mikið sem ég hef á mánuði þegar allt hefur verið greitt. Ég hef til dæmis þurft til tannlæknis og læt frekar draga úr mér tönn (og hef gert það þrisvar) af því það er ódýrara, en ég fæ sko barnabætur. Ég nota lyf að staðaldri og hef undanfarið ár þurft að minnka skammtinn til að eiga út mánuðinn af því annars endast ekki lyfin, en ég fæ sko barnabætur. Ég stoppa í nærfötin mín af því ég hef ekki efni á að kaupa ný eða barnið mitt vantar það sama, en ég fæ sko barnabætur. Ég borða ekki það sem barninu mínu finnst gott og til er á heimilinum því þá er ekki til nóg handa því af því það eru ekki til peningar til að kaupa meira, en ég fæ sko barnabætur. Ég kaupi mikið af fötum hjá Hjálpræðishernum eða Rauða krossinum af því ég hef ekki efni á að versla í tískuvöruverslunum, en ég fæ sko barnabætur.
Ég fer aldrei í bíó með barninu mínu af því það er svo dýrt ef við förum báðar heldur leyfi því frekar að fara með einhverjum vina sinna, en ég fæ sko barnabætur. Við förum aldrei út að borða og ef ég fer í sjoppu og kaupi pylsu og kók handa barninu mínu þykist ég ekki hafa lyst og fæ mér frekar eitthvað heima, en ég fæ sko barnabætur. Ég hef þurft að leita á náðir hjálparstofnana fyrir mat vegna þess að það er bara allt orðið tómt um miðjan mánuð, en ég fæ sko barnabætur. Ég hef leitað til Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð en fæ hana ekki vegna þess að ég er yfir kvarða vegna persónulegra skulda og fæ því alltaf synjun, en ég fæ sko barnabætur.
Hvenær í ósköpunum ætlar fólk að hætta að halda því fram að einstæðir foreldrar séu svo svakalega vel stæðir þó þeir fái barnabætur á þriggja mánaða fresti? Lifir þetta fólk ekki í sama veruleika og við hin, hefur það ekki tekið eftir því hvað kostar að vera til, hvað kostar að reka heimili og hafa ofan í sig og á, hvað er að fólki? Ég vildi óska að þessi óraunveruleikablaðra sem sumt fólk virðist lifa í færi nú að springa og það hætti þessum slettum varðandi barnabætur. Því það verður enginn ríkur af þeim.
Sædís Inga Ingimarsdóttir.